Skírnir - 01.01.1978, Side 208
206
MAGNÚS PETURSSON
SKÍRNIR
er vitað um myndun sérhljóðanna. Það heíur komið í ljós, að allt munnholið
verkar sem eitt hljómhol. Ekki er lengur hægt vísindalega að tala um tvö
eða fleiri hljómhol innan munnholsins. Mesta öng í munnholi er því mynd-
unarstaður allra sérhljóða alveg á sama hátt og hjá samhljóðum og hjá a
er þessi öng milli tungurótar og kokveggjar. Form hljómholsins fyrir framan
og aftan myndunarstaðinn er svo afleiðing af því, hvar þessi myndunar-
staður er (sjá Fant 1970; Ungeheuer 1962). Oftast er að vísu svo, að tunguhæð
og kjálkaopna fylgjast að fyrir i og a, eins og gagnrýnandi minn bendir rétti-
lega á. Samt er það ekki skilyrði. Til eru tungumál, þar sem i hefur tvenns
konar tungustöðu með og án angarmyndunar í koki. Ennfremur má benda á,
að til eru einstaklingar, sem geta talað fullkomlega skiljanlega með pípu í
munni og fer þá ekki saman tunguhæð og kjálkaopna. Þetta er því ekki
náttúrulögmál, eins og gagnrýnandi minn virðist álíta.
Lýsing mín á h er gagnrýnd og fullyrt, að hún geri ekki kleift að skilja
milli tals og venjulegs andardráttar. Þetta er ekki rétt. Opna raddglufunnar
í tali, þegar öll talfærin eru á hreyfingu, nægir til að mynda h, sem um leið
tekur lit af grannhljóðunum. í þessum skilningi er h loftstraumurinn, sem
streymir frá lungunum, og er það engan veginn sama og útöndun.
Ég er sammála gagnrýnanda mínum að nota má hugtökin harður og linur
til að höfða til hljóðskynjunar og hafði raunar sagt það í bók minni frá
1974 (1974a, bls. 205). Það þýðir hins vegar allt annað inntak þessara hugtaka
en fram til þessa hefur verið reynt að halda fram. Óheppilegt er því hjá mér
að hafa notað hugtökin harðmœli og linmœli, en beinlínis hættulegt tel ég
það þó ekki, ef mönnum er ljóst, að hljóðmyndunarlega eru þessi orð merk-
ingarlaus. Hættan er, að menn vilji túlka þessi orð hljóðmyndunarlega, því
að þá lenda menn í stökustu vandræðum með hljóðlýsinguna.
Er ég ræði framburð órödduðu nefhljóðanna á undan p t k (sbr. ritd. bls.
218), hélt ég, að ekki gæti farið framhjá neinum, að ég tala þar af ásettu
ráði um stafsetningu, en ekki um hljóðfræði. Ég hafði ekki í hyggju að gefa
þar hljóðkerfislega skýringu. Hana hef ég gefið i grein minni í belgíska
tímaritinu Orbis árið 1973, en þar tel ég, að afröddun fornu lokhljóðanna
b d g skýri uppruna þessara hljóða og einnig uppruna /h/ í innstöðu.
Gagnrýnandi minn finnur að hugtökunum gómmœlt og gómfillumrelt (ritd.
bls. 219). Gómlokhljóðin íslenzku í get og ket eru ekki mynduð eingöngu
við framgóm eins og fullyrt er í eldri lýsingum, heldur einnig við hágóm.
Því er ekki rétt að lýsa þeim sem framgómmæltum. Af þessari ástæðu áleit
ég nauðsynlegt að búa til orðið gómmælt, sem lýsir myndun þessara hljóða
betur en eldri nafngiftin. Orðið gómfillumœlt táknar hins vegar, að lok-
hljóðin í gaf og kaí myndast aldrei við framgóm. Með þessum nýju nafn-
giftum tel ég því hljóðlýsinguna verða nákvæmari. Rétt er þó að geta þess,
að þessi orð hafa ekki algjöra merkingu (mjög fá hugtök í hljóðfræði hafa
algjöra merkingu). Merking þeirra tekur mið af þeim einingum, sem mynda
hljóðkerfi viðkomandi tungumáls. Ef ég væri að lýsa frönsku, sem ekki hefur
gómmælt (palatal) lokhljóð, gætu gómfillumælt lokhljóð þess máls verið