Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 56
50
GÍSLI PÁLSSON
SKÍRNIR
bendir á að líkan Godeliers sé furðu fjarlægt hugmyndaheimi
Barúýja, slitið úr tengslum við „pólitíska kenningu frumbyggj-
anna“ (1992:112). Kenning Godeliers um mikilmennin virðist
fyrst og fremst „sprottin upp úr glímu við draug Marx“ (bls.
120), við kenningalegar kreddur um almenn „þróunarlögmál".
Það getur vel verið gagnlegt að líkja leiðtogum á fyrsta skeiði
goðaveldisins við svokölluð mikilmenni í öðrum samfélögum.
Oft hefur verið bent á að orðsifjar hugtaksins goði gefi til kynna
trúarlegt vald sem svipar til þess sem trúarleiðtogar í samfélögum
mikilmenna (shamanar) eru sagðir búa yfir. Orðið goði er dregið
af stofninum goð, sem skírskotar til einhvers konar töframanns,
og nokkur skyld hugtök, þ. á m. blótgoði, hofgoði og goðorð,
benda sterklega til trúarathafna sem tíðkast hafi fyrir tíma kristni.
Einnig má nefna að margt er sláandi líkt með frásögn Godeliers
(1986) af hugmyndum Barúýja um tilurð heimsins og tengslum
kynjanna í samfélagi Barúýja og sumum af frásögnum fornrit-
anna, einkum Eddukvæða (Linke 1992). Ekki verða dregnar nein-
ar endanlegar ályktanir af þeirri brotakenndu vitneskju sem
tiltæk er um trúarbrögð og leiðtogahlutverk á tímum íslenska
goðaveldisins, og menn skyldu minnast hinna „skilyrtu og ómeð-
vituðu viðbragða“ sem Godelier ræddi um í sambandi við rann-
sóknir í Melanesíu. Hins vegar virðist skynsamlegt, ef tekið er
mið af lýsingu Islendingasagna og Sturlunga sögu, að fara að for-
dæmi Turners og líta á íslenska goðann sem hliðstæðu Melanesíu
leiðtogans sem Sahlins lýsti - og veita þannig stórmenninu póli-
tískt hæli, ef svo má að orði komast:
Áhrif goðans endurspegla m.a. líkamsstyrk hans, orðstír, vopnfimi, og
þau auðæfi sem hann hefur fengið að erfðum, ekki ósvipað því sem gerist
meðal svonefndra „stórmenna“ á Nýju-Gíneu. [...] Það sem hefur gert
hann frægan, örlæti í veislum sem hann heldur fólki sínu og nágrönnum
[...], grefur um leið undan veldi hans. (Turner 1971:364-65)
Sjálfsævisaga Ongka, frá Hagen á hásléttum Nýju-Gíneu (sjá
A. Strathern 1979), geymir athyglisverða lýsingu á stórmenni.
Ongka og önnur stórmenni báru ábyrgð á því að halda saman og
styrkja innviði samfélagsins, með því að setja niður deilur og