Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 239
SKÍRNIR
AÐ LOKNU GULLÆÐI
233
Hann var í bláum bol sem virtist vera alveg hreinn og gallabuxum
sem virtust nýþvegnar. Hann var með steypublett á sólbrúnu enninu.
Hárið dökka bylgjaðist í golunni, það gljáði í sólinni. Allt timbrið
var uppraðað. Eg skynjaði að ég var í rauninni ekki í þakkarskuld við
hann því hann hafði gert þetta fremur fyrir sjálfan sig en okkur. [...]
Það streymdi frá honum ljósið og ég hugsaði á þeirri stundu, ég sá
það á þeirri stundu svo stappaði nærri vissu að í lífi sínu myndi hann
taka sér eitthvað fyrir hendur sem yrði fallegt og rétt og farsælt því
þessar hendur voru farsælar hendur, gerðar til að ryðja og rækta og
byggja [...]. (GAT, 76)
Kjartan er hér sýndur sem holdtekning þess „íslenska draums“ sem
er meginviðfangsefni sögunnar. I lýsingu hans eru endurtekin sömu
atriði og einkenna föður hans þegar hann er að undirbúa stofnun fyrir-
tækisins. Lykilorðin eru ryðja, rœkta, byggja, samsvarandi upptalning
hjá föður hans er gera, starfa, móta. Kjartan fyllir fullkomlega út í það
gervi sem Hrafni og vini hans mistekst að bregða sér í, hann er maður
akkorðsins, uppgripanna, gullæðisins, hann er landnámsmaður líkt og
forfeður hans sem byggðu upp í sveitum landsins. En þessi glansmynd
reynist vera blekking og eins er um digurbarkalegt tal Kjartans um fram-
tíðina og þá uppbyggingu sem hann ætlar að verja lífi sínu til: „Pældu í
þessari borg hérna, sjáðu hvað hún er full af eyðum, þú þarft ekki annað
en að horfa á hana. Við getum valið sjálfir hvaða eyðu við fyllum upp í.
Það vantar allt. En við verðum að gera það sjálfir“ (57). Að lokum fara
draumar Kjartans á versta veg. Hann verður gjaldþrota eftir að hafa
fengið Hrafn til að skrifa upp á fyrir sig og dregur hann með sér í fallinu.
Vert er að hafa í huga að þessar lýsingar eru upplifun og lýsing sjón-
arvottsins Hrafns, sem sér í Kjartani beint framhald föður þeirra, beint
framhald þeirrar athafnasemi og þeirra draumóra sem við höfum séð
hrynja hvað eftir annað í sögunum. Hann er líkt og Halldór Killian í
stöðu gagnrýnandans, en kannski fyrst og fremst greinandans. Hann set-
ur líf þeirra (fóst)bræðra og föður þeirra í samhengi og reynir að skýra
örlög þeirra með hliðsjón af þjóðarsögunni og þjóðarsálinni.
Þriðji sonurinn sem er í frásagnarmiðju - þótt hann gegni raunar
ekki hlutverki sögumanns eins og þeir Hrafn og Halldór - er Þórarinn
sonur Sigurbjarnar í Tröllakirkju. Einn af þráðunum í sögunni er lýsing
á því hvernig Þórarinn kynnist heimi vinnunnar. Að kröfu móður sinnar
vinnur hann sem sendill hjá kjötkaupmanni í bænum sumarið sem sagan
gerist. Þórarinn reynir raunar að sleppa undan þessari vinnu, og þykist
hafa fengið loforð föður síns fyrir því að fá að ganga iðjulaus um sumar-
ið. En móðir hans fær sitt fram, og afleiðingin verður sú að Þórarinn
álasar föður sínum fyrir að hafa svikið sig.
Vinnan (og raunar svik föðurins) verður fyrsta skref Þórarins frá
föður sínum og markar upphaf sjálfstæðrar tilveru hans. Vinnan stælir