Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 142
136
LOGI GUNNARSSON
SKÍRNIR
nokkurri heimspekilegri skoðun muni nokkurn tíma takast að ljá
lífinu merkingu. Og til geta verið góð frumspekileg rök gegn
skoðunum sem tekst það. En það hlýtur engu að síður að vera
markmið heimspekilegrar hugsunar að leitast við að ljá lífinu
merkingu.30
Eins og orð mín gefa til kynna hefur rökfærsla mín einkennst
af samanburði: Ég hef haldið því fram að líf sem styðst við sterkt
gildismat sé betra en líf utangarðsmannsins. Að minni hyggju
hlýtur viðleitni til að gera grein fyrir merkingu lífsins alltaf að
fela í sér ákveðinn samanburð: Þegar við látum tiltekna afstöðu
eða tiltekið sjónarhorn víkja fyrir öðru erum við ekki þar með að
halda því fram að síðara sjónarhornið sé óumdeilanlegt, heldur
því að það geri betri grein fyrir merkingu lífsins heldur en hið
fyrra.31
I samanburði mínum á beitingu sterkra gildisdóma og lífi ut-
angarðsmannsins, og þar með í rökum mínum fyrir sterku gildis-
mati, hef ég sjálfur stuðst við sterkt gildismat.32 Sú staðhæfing
mín að tilteknar leiðir til að ljá lífinu merkingu séu utangarðs-
30 Þótt það sé kannski djörf túlkun hjá mér held ég að þetta sé besti skilningur-
inn á hugsun Taylors (sbr. Taylor, Sources of the Self bls. 57-60) og Wiggins
(„Truth, Invention, and the Meaning of Life“, einkum bls. 98-116).
31 Við útfærslu á réttlætingu minni fyrir sterkum gildisdómum hef ég orðið fyrir
áhrifum af hugmyndum Nicholasar Rescher um hinar ýmsu gerðir réttlætinga
(á gildum, skynsemishugtakinu, aðleiðslu o.s.frv.) sem eru í anda nytsemis-
hyggju. Ef við látum „X“ tákna það sem réttlæta á getum við sagt að skyld-
leiki aðferðar minnar við ýmsar af réttlætingum Reschers sé tvíþættur: (1)
réttlætingin gengur að hluta til út á að bera X saman við aðra valkosti; (2) rétt-
lætingin á X getur ekki komist hjá því að vísa til X sjálfs. Þrátt fyrir þennan
skyldleika er einnig mikilvægur munur á aðferð minni og hugmyndum
Reschers, og ég tel réttlætingu mína vera frábrugðna öllum nytsemisréttlæt-
ingum Reschers hvað uppbyggingu snertir. Nytsemishyggja gegnsýrir annars
gjörvöll verk Reschers. Til stuðnings við þau atriði sem ég tæpi á hér læt ég
nægja að vísa til eftirfarandi rita: Nicholas Rescher, Methodological Pragmat-
ism: A Systems-Theoretic Approach to the Theory of Knowledge (New York:
New York University Press, 1977); Rationality: A Philosophical Inquiry into
the Nature and the Rationale of Reason (Oxford: Clarendon Press, 1988),
3.-4. kafli; A System of Pragmatic Idealism, 1. bindi (Princeton: Princeton
University Press, 1992), 2. og 9. kafli; A System of Pragmatic Idealism, 2.
bindi (Princeton: Princeton University Press, 1993), 14. kafli.
32 Þegar hér er komið sögu er ef til vill við hæfi að geta þess að rökfærsla mín er
ekki síður undir áhrifum frá John McDowell en Taylor. McDowell hefur fært