Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 175
SKÍRNIR HEIMURINN SEM KRÓNÍSK RANGHUGMYND
169
2. Umþá lúsakamba sem hreinsa sálina
I ritgerð sinni „Listin sem tækni“ (1917) setti rússneski formalistinn
Viktor Shklovskíj fram þá kenningu að með skáldskapnum framandgeri
rithöfundar venjulegt tungumál og neyði þannig fólk til þess að sjá hlut-
ina í nýju ljósi. Þegar skynjun okkar á veruleikanum er orðin vélræn hafa
orðin misst mátt sinn og athafnir okkar eru orðnar ósjálfráðar og ómeð-
vitaðar:
Með þessum hætti týnist lífið, breytist í ekki neitt. Sjálfvirknin étur
upp hluti, klæði, húsgögn, eiginkonuna og óttann við stríð. „Ef að
allt hið flókna líf fjölda manna líður hjá í meðvitundarleysi, þá er sem
lífi þeirra hafi aldrei verið lifað.“ Og það sem við köllum list er til
svo að unnt sé að endurheimta tilfinninguna fyrir lífinu, til að menn
séu næmir á hlutina, til að steinninn sé sannarlega úr steini. Tilgangur
listar er að gefa tilfinningu fyrir hlutum eins og við skynjum þá og
sjáum en ekki eins og við séum að kannast við þá. Tækni listarinnar
er fólgin í þeirri aðferð að gera hlutina framandi, þeirri aðferð að gera
formið torvelt, að auka á erfiðleika skynjunarinnar og teygja úr
henni, þar eð skynjunarferlið er listrænt markmið í sjálfu sér og
verður því að framlengja.12
Enda þótt kenning Shklovskíjs um hlutverk listræns tungumáls sé tak-
mörkuð, varpar hún ljósi á veruleikasýn Einars Más Guðmundssonar.
Þeim hlutveruleika sem „ímyndunaraflið ræður ekki við“ er sagt stríð á
hendur og hversdagslegustu neysluvörur verða að skáldlegri uppsprettu,
jafnt sígarettur og bílategundir, svo vitnað sé í höfundinn sjálfan: „Ég hef
alltaf haft gaman af svoleiðis smáatriðanostri og ýmislegt verður svo
póetískt í fjarlægðinni. Menn fara að sjá póesíu í gömlum ljósastaurum
og svo framvegis. Eða til dæmis Osram perum.“13
Einar réttlætir framandgervinguna með því að velja óvenjulega sögu-
menn sem hljóta stöðu sinnar vegna að hafa óhefðbundnari sýn á hlut-
veruleikann en hinn almenni lesandi. Þannig eru æska, draumar, geðsýki,
sýrutripp og lyfjavíma nokkrir af þeim fjölmörgu þáttum sem skapa
annarlegt sjónarhorn í sögum hans. Með þessu móti getur Einar lýst
sagnaheimi sínum út frá sjálfsköpuðum lögmálum goðsögusviðins, með
því að framandgera íslenskan veruleika og hleypa, ef svo má að orði
komast, töfrunum inn í raunsæið. Þessa sérstöku frásagnartækni má
greina í fyrstu ljóðabók Einars, Er nokkur í kórónafötum hér inni? Ég
12 Viktor Shklovskíj, „Listin sem tækni". Árni Bergmann þýddi úr rússnesku.
Spor í bókmenntafrisði 20. aldar, s. 29.
13 „Lífsgleðin á grunnplaninu: Guðmundur Andri Thorsson og Páll Valsson
ræða við Einar Má Guðmundsson", s. 44.