Morgunblaðið - 04.07.2015, Síða 47
47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. JÚLÍ 2015
AF ATP
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Ég var að eignast mittsjötta barnabarn og tileinkaþví þessa tónleika,“ sagði
rapparinn Flavor Flav í upphafi
tónleika einnar merkustu hipphopp-
sveitar allra tíma, Public Enemy, á
tónlistarhátíðinni All Tomorrow’s
Parties í fyrrakvöld. Tónleikagestir
fögnuðu þessari yfirlýsingu innilega
og hlógu dátt. Maðurinn sem
skoppaði um sviðið eins og ungling-
ur með félaga sínum Chuck D,
ennþá klæddur í síðan körfubolta-
bol og -buxur með derhúfu á hausn-
um og stóra klukku um hálsinn eins
og á upphafsárum Public Enemy,
er sexfaldur afi! Sem er svo sem
ekkert skrítið því hann er orðinn 56
ára – Public Enemy kom fram á
sjónarsviðið í byrjun níunda áratug-
arins og er líklega áhrifamesta
hipphopp-sveit tónlistarsögunnar.
Og þeir slá ekki slöku við,
kapparnir í Public Enemy, komnir
á sextugsaldurinn og sviku svo
sannarlega ekki aðdáendur sína í
Atlantic Studios-skýlinu, unga sem
aldna. Public Enemy flutti sína
helstu smelli, m.a. „Bring the
Noise“, „Don’t Believe the Hype“
og „Fight the Power“ og gestir
tóku vel undir, stigu dans og
hlýddu öllum tilmælum sem þeim
voru gefin af forsprökkum og að-
stoðarmönnum þeirra sem klæddir
voru í herbúninga. Public Enemy
var greinilega hingað komin til að
skemmta og það gerði hún svo
sannarlega. Flavor Flav sprangaði
milli hljóðfæra og rímnaflæði þeirra
Chucks D var algjörlega hnökra-
laust, þótt erfiðlega gengi stundum
að heyra textann. Hljóðið var nefni-
lega ekki alveg nógu gott og annar
galli á þessum annars ágætu tón-
leikum var tilhneiging forsprakk-
anna til þess að kynna væntanlega
plötu og vef hljómsveitarinnar. Var
það gert nokkrum sinnum og fulloft
fyrir minn smekk.
68 ára orkubolti
Næsti afi á svið var svo sjálfur
Iggy Pop, sú mikla rokkgoðsögn.
Áhrif hans á pönk og rokk eru óum-
deild og mögnuð sviðsframkoma
þessa eilífðarungmennis hefur orðið
mörgum söngvaranum innblástur.
Iggy er 68 ára og þótt líkaminn
sé farinn að bera aldrinum merki er
orkan enn til staðar. Hann óð um
sviðið, skók sig og rak tunguna
framan í áhorfendur, var með kyn-
ferðislega tilburði og sýndi alla sína
víðfrægu sviðstakta. Iggy gaf sig
allan í flutninginn og smellirnir
komu á færibandi: „Lust for Life“,
„I Wanna Be Your Dog“, „The Pas-
senger“, „Nightclubbing“ og þannig
mætti áfram telja. Feikilega flott
lög og sígild og hljómsveitin al-
gjörlega skotheld. Inn á milli komu
minna þekkt lög sem ég kann ekki
að nefna og datt þá stuðið aðeins
niður, eins og verða vill.
Skælbrosandi og hugfanginn
fylgdist ég með þessum stórkost-
lega listamanni æða um sviðið eins
hratt og skrokkurinn leyfði, manni
sem lætur aldurinn ekki stöðva sig.
Iggy mun fara rokkandi í gröfina,
svo mikið er víst. Ekki svo að skilja
að Iggy sé hlægilegur, alls ekki,
heldur er hann svo magnaður
skemmtikraftur að maður getur
ekki annað en brosað út að eyrum.
Líkt og þegar Nick Cave fór ham-
förum á ATP fyrir tveimur árum,
hamaðist svo mikið að hann féll
fram af brú milli sviðs og örygg-
isgirðingar. Sem betur fer datt
Iggy ekki fram af sviðinu.
Dansað með gestum
Að lokinni tvöfaldri kennslu-
stund í sögu rokk- og rapptónlistar
tóku við öllu mýkri tónleikar
skosku poppsveitarinnar Belle and
Sebastian. Fjölskipuð flutti hún
nokkur nýleg lög til að byrja með
Hvað ungur nemur …
Morgunblaðið/Þórður
Eldhress Flavor Flav í Public Enemy lék á als oddi og hreif áhorfendur með sér og tilkynnti að hann hefði nýverið eignast sitt sjötta barnabarn.
sem voru ágæt en fljótlega fór mig
að þyrsta í einhver kunnugleg. Það
var ekki fyrr en „The Boy with the
Arab Strap“ fór að hljóma að áhorf-
endur fóru að dilla sér almennilega
og taka undir og fjöldi þeirra fékk
að fara upp á svið og dansa með
hljómsveitinni. Færðist þá fjör í
leikinn.
Belle and Sebastian er virki-
lega góð hljómsveit, hefur gert
margar prýðilegar plötur og flutti
sín lög af fagmennsku þetta kvöld
en líklega hefði farið betur á því að
láta hana leika á undan Public
Enemy og Iggy Pop. Að fara úr fal-
legu indípoppi yfir í harðara efni,
rapp og rokk.
» Skælbrosandi og hugfanginn fylgdist ég meðþessum stórkostlega listamanni æða um sviðið
eins hratt og skrokkurinn leyfði, manni sem lætur
aldurinn ekki stöðva sig.
Innlifun Stuart Murdoch, forsprakki Belle and Sebastian.
Sæla Áhorfendur dönsuðu og tóku vel undir á tónleikum Public Enemy.
Óviðjafnanlegur Iggy Pop fór mikinn á sviði Atlantic Studios á ATP.