Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Side 100
Hugsjón sína reifaði Lúther í bréfi til Georgs Spalatin sem var hirðprestur og
ritari Friðriks vitra kjörfursta af Saxlandi. Bréfið reit hann um áramótin 1523-
24 og þar biður hann Spalatín að taka að sér að yrkja sálma og andlega söngva
og segist hafa farið þess á leit við fleiri skáld að gera slíkt hið sama. „Ætlun
mín,“ segir hann, „er að fylgja dæmum spámannanna og kirkjufeðranna og
skrifa sálma á móðurmáli fyrir almenning, þ.e.a.s. andlega söngva til þess að
orð Guðs geti varað við hjá fólki líka í söng.“3 Bréfinu fylgdi sem sýnishorn
ljóð Lúthers út frá 130. Davíðssálmi. Spalatin virðist ekki hafa tekið áskorun
Lúthers um að setjast niður og yrkja og það er ekki vitað hverjir hinir voru
sem Lúther sendi svipaða áskorun.
Þótt tilgangur Lúthers hafi verið að sá orði Guðs meðal fólks þá er athyglisvert
að hann í endursögnum sínum á biblíulegu efni gerir meira en endursegja
viðkomandi biblíutexta heldur útleggur hann textana. I riti sínu um þýðingar
frá 1530 skrifar hann að þýðandi verði að gæta þess að hyggja bæði að merkingu
frumtextans og að framsetningu textans á móðurmáli. Þess vegna er aldrei hægt
að þýða orðrétt því að ýmis orð og orðasambönd á hebresku og grísku séu
Þjóðverjum óskiljanleg. Að auki þarf þýðandi líka að hyggja að því málefni eða
boðskap sem textinn á að koma á framfæri og það er fagnaðarerindið fyrir Jesú
Krist eða Kristur sjálfur.4 Þessi útleggingaraðferð Lúthers kemur einmitt vel
fram í sálmum hans. Það sést strax í sálminum Aus tiefer not þar sem áherslan á
meðalgöngu Krists skín fram. Sálmurinn frægi, Vor Guð er borg á bjargi traust
er ennþá skýrara dæmi. Hann byggist á 46. sálmi Davíðs, „Guð er oss hæli og
styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ Viðlagið er: „Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi.“ í útleggingu Lúthers er það Jesús Kristur sem er Drottinn
hersveitanna og mannanna örugga vígi. Það má kannski kalla þennan sálm
skóladæmi um hvað regla Lúthers um að Kristur sé miðja Biblíunnar merkir.
Alls orti Lúther sálma út frá sjö Davíðssálmum. Auk sálma 46 og 130 sem
áður er getið eru það einnig sálmar 12, 14, 67, 124 og 128. Auk þess færði
hann Lofsöng Símeons í ljóð.5
3 Martin Luthers Werke kritische Gesamtausgabe (skammst. WA), Briefwechsel 3. Bd. Nr. 698, s. 220-221.
4 Sjá grein mína „Þýðingaraðferðir Lúthers.“ Guðfrœði, túlkun ogþýðingar. Afinœlisrit Jóns Sveinbjömssonarprófess-
ors. Ritröð Guðfrœðistofnunar (Studia theologica islandica) 13, 1998, s. 77-88.
5 Sálmar Lúthers eru allir í WA 35 og hér teknir eftir Jenny, M 1985, Luthersgeistliche Lieder undKirchengesdnge.
Vollstandige Neuedition in Erganzungzu Band 35 der Weimarer Ausgabe. Köln, Wien. Böhlau Verlag. Töflu um
sálma Lúthers í íslenskum sálmabókum er að finna á www.gudfraedi.is/annall/einar.