Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Síða 117
Hið „prófana“ nær hins vegar yfir allan annan tíma hvort sem valið er að kalla
hann rúmhelgan, virkan eða veraldlegan.
Forsendur þess að rætt er um helgan tíma í trúarhefð Austurlanda nær og
Vesturlanda er að finna í hvíldardagsboði ísraelsmanna hinna fornu sem er
að finna í þriðja boðorði sáttmálans frá Sínaífjalli sem um getur í Exodus eða
Annarri Mósebók en þar segir:
Minnstu þess, að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og
vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni,
Guði þínum: þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dótdr þín,
þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá
þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himinn og
jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði
Drotdnn hvíldardaginn og helgaði hann.15
Hér er rætt um hinn sjöunda dag sem síðar varð sabbatsdagur Gyðinga. Hann
þiggur tölu sína af því að samkvæmt fyrri sköpunarsögu Genesis, Fyrstu Móse-
bókar, lauk Drottinn allsherjar sköpun heimsins á sex dögum en hvíldist hinn
sjöunda dag:
Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört og hvíldist hinn
sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.
Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist
Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.16
Hinn sjöundi dagur var því blessaður og helgaður af Drottni með sérstökum
hætti sem fullkomnun eða kóróna á verki hans. Helgi sína hlaut hann af hvíld
Drottins og tilgangur hans fólst í hvíldinni sjálfri. Hér var ekki aðeins átt við
hvíld eignamannsins eða hins frjálsa manns heldur alls samfélagsins og sköp-
15 2M 20. 8b-11.
16 1M. 2. 2-4a. Samkvæmt þeirri röksemdafærslu sem kemur fram í boðorðinu byggist helgi sabbatsins á hvíld
Drottins á sjöunda degi sköpunarinnar. Þannig má segja að með því hafi Drottinn skapað helgina eða greint
hinn helga tíma frá hinum virka. í þessu sambandi skal á það bent að 20. kap. Exodus er rakinn til svokallaðrar
E heimildar Fimmbókaritsins (Mósebókanna) og er hún rakin til tímans fyrir 721 f. Kr., þ. e. fyrir fall Norður-
ríkis ísraelsmanna að svo miklu leyti sem menn aðhyllast að hún sé til. Anderson 1966, s. 35, 37. Hins vegar
hefur verið talið að fyrri sköpunarsagan í Fyrstu Mósebók komi úr P heimildinni sem hefur verið nefnd svo og er
talin mun yngri. Textafræðileg tengsl milli þessara textabrota eru því ekki einföld þó um efnistengsl sé að ræða.
Anderson 1966, s. 46, 49. Nokkuð hefur dregið úr vægi hinnar klassísku heimildakenningar um uppbyggingu
Fimmbókaritsins.