Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 121
markar hann ekki upphaf heldur lok viku og hefur auk þess oft glatað rauða
litnum. I nútímanum virðist sunnudagurinn því orðinn að litlausum vikulok-
um. Þar með hefur hann misst tilgang sinn og merkingu, glatað helgi sinni
og orðið hversdagslegur. Atvikið frá 2003 sýnir að fleiri kristnir helgidagar
hafa farið sömu leið. Spyrja má hvort ekki sé um skaðlausa þróun að ræða eða
hvort nútímafólk sé í einhverri þörf fyrir það sem hér er kallað helgi eða ein-
hverja hliðstæðu hennar.
Þær aðstæður sem taldar eru ákjósanlegastar í samfélagi sem einkennist í
vaxandi mæli af einstaklings- og neysluhyggju einkennast af sjálfsákvörðunar-
rétti, sveigjanleika og aðlögun að lífsháttum hvers einstaklings fyrir sig. Ein-
staklingsbundinn, sveigjanlegur vinnutími, möguleiki á að sinna starfi sínu
utan vinnustaðar og möguleikinn til að nálgast vöru, þjónustu, upplýsingar
og afþreyingu hvenær sem einstaklingurinn kýs virðist því hafa ótvíræða kosti
en fáa galla. Þá hefur tækni nútímans, tölvur, veraldarvefur og farsímar gert
það að verkum að þessar aðstæður geta orðið að veruleika. Stöðugt fleiri stofn-
anir og fyrirtæki hafa líka lagað starf sitt að þessum aðstæðum. Mögulegt er að
ljúka algengustu bankaviðskiptum á föstudaginn langa, kaupa farmiða hvert
á land sem er á jólanóttinni, fylgjast með efni ljósvakamiðla löngu eftir að
hin eiginlega útsending hefur átt sér stað og nálgast nauðsynjavöru allan sól-
arhringinn í mesta þéttbýlinu nánast árið um kring svo fremi sem helgidaga-
löggjöf sem hugsanlega er orðin lík í lest samtímans kemur ekki í veg fyrir það
með stafkrókum sínum. Sú framtíð sem marga dreymdi um fyrir fáum árum
er því orðin að veruleika og hefur leyst vanda margra sem hafa margháttuðum
skyldum að gegna á heimili og í vinnu. En hefur þessi þróun e.t.v. einhverja
skuggahlið sem veldur því að í skerðingu helgarinnar felst ekki aðeins aukið
frelsi heldur hefur líka einhverju verið fórnað?
Ýmsir sem fjallað hafa um streitu, streituviðbrögð og streituvalda í samtím-
anum hafa bent á að þær aðstæður sem komist hafa á með hjálp fyrrgreindrar
tækni og ætlaðar voru til að auðvelda fólki lífið hafi hugsanlega leitt til of
hraðfara, ófyrirséðra breytinga fyrir marga. Einnig telja þeir að sá hreyfanleiki
og sveigjanleiki sem komist hefur á skapi nýtt álag og óöryggi sem vegi þyngra
hjá mörgum en þau þægindi sem að var stefnt. Helsta ástæða þessa er talin sú
að ekki hefur tekist að skapa þær aðstæður að sérhver einstaklingur fái lokið
verkefnum sínum í eigin takti heldur hefur verið byggt upp hvatakerfi eða
119