Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 122
aðrar þær aðstæður sem krefjast hámarksafkasta af öllum.20 Tækninýjungar
hafa því ekki fyrst og fremst leitt til þæginda heldur orðið tæki í höndum
þeirra sem krefjast skilvirkni og hagræðingar.
Með þessu er ekki sagt að æskilegt sé að hverfa aftur til aðstæðna samhyggj-
unnar sem einkenndust af því að einstaklingurinn lagaði sig að viðhorfum,
hagsmunum og lífsháttum heildarinnar, fjöiskyldunnar, byggðarlagsins eða
þjóðarinnar. Oft hættir mönnum til að sjá þessar aðstæður í hillingum en
bakhlið þeirra var sú að einstaklingurinn fékk ekki notið sín eða þróað með
sér sjálfsmynd í þeim mæli sem æskilegt er talið nú á dögum.21 Skylt er þó
að benda á að í hugarfarssögulegu samhengi verður ekki fullyrt að fólk hafi á
fyrri tímum haft sömu þörf fyrir einstaklingbundna sjálfsmynd í sama mæli
og nútímamaðurinn.
Til að ráða bót á þeim streituvekjandi aðstæðum sem upp hafa komið í
kjölfar tæknibyltingar síðari áratuga hafa fræðimenn bent á að afstaða fólks til
tímans og umfram allt skipting hans í mismunandi hugiæga flokka líkt og að-
greining milli helgar og rúmhelgi geti skipt sköpum fyrir velferð og líðan ein-
staklinga. Norski geðlæknirinn Finn Skárderud er einn þeirra sem gert hafa
tilraunir til að greina upplifun fólks og huglæga afstöðu þess til tímans. Hann
greinir á milli hins „eðlisfræðilega tíma“, það er tíma sem líður og mögulegt
er að magnmæla með klukku eða dagatali og hins tilfmningalega upplifaða
tíma.22 f þessu sambandi má minna á tvö tímahugtök grískrar tungu, krónos og
kairós, þar sem fyrra hugtakið vísar til hins eðlisfræðilega tíma og magnmæl-
ingar hans en hið síðara til tilfmningalægari afstöðu til tímans og gæðamats á
honum. Kairós stendur fyrir það andartak þegar hjól tímans líkt og stöðvast
fyrir, ögurstundina, tíma hinnar afgerandi krísu eða ákvörðunar, náðartímann
í trúarlegum skilningi. Sá sem upplifir kairós stendur að nokkru utan tímans
20 Jönsson 2004a, s. 35-36, 132. Jönsson 2004b, s. 22, 52-53, 59.
21 Jönsson 2004b, s. 52-53, 63-64, 69. Samhyggja merkir hér þær hugarfarssögulegu aðstæður sem ríktu fyrir
daga einstaklings- og fjölhyggju. T.d. áður en trúfrelsi var komið á. Aðstæðum á þeim tíma má einnig lýsa með
hugtakinu trúarmenning. Loftur Guttormsson 2000, s. 359. Hið mótsagnakennda er að þrátt fyrir þann sveigj-
anleika og þá einstaklingsaðlögun sem til staðar er á ýmsum sviðum leiða tækni og viðmið samtíðarinnar eigi
að síður til ákveðinnar stöðlunar einstaldinga þótt undir öðrum formerkjum sé en um daga samhyggjunnar sem
byggðist á fastmótaðri hugmyndafræði, í okkar heimshluta á kristinni trú. Stöðlun sem hlýst af tækni hvílir hins
vegar aðeins óbeint á mótaðri hugmyndafræði. Jönsson 2004a, s. 133.
22 Skárderud 2004, s. 230.
120