Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 128
mismunandi tagi og mismunandi afstöðu til tímans sem gerir það merking-
arbært að ræða um virkan tíma og tíma af öðru tagi. Síðarnefndi tíminn líkist
um margt hugmyndum Israelsmanna hinna fornu og síðar kristinna manna
um heilagan tíma eða helgi þótt þau orð kunni að vera merkingarlítil fyrir
mörgum í nútímanum. Þess í stað má ræða um „góðan/langan“ tíma eða
einfaldlega hvíldartíma sem þó er notaður á markvissan hátt til að vera hvað
svo sem hver einstaklingur síðan gerir til að ná því ástandi. Skárderud bendir
þó á að trúarlegar og veraldlegar huglægar upplifanir séu um margt líkar og
ræðir í því sambandi um „hið veraldlega heilaga“ og á þar við undantekning-
arástand, tíma og/eða rúms sem greint er frá hversdeginum og myndar hæli,
skjól eða valkost við hið hversdaglega.41 Sænski trúarlífssálfræðingurinn Owe
Wikström er inni á svipuðum nótum og ræðir bæði um hið „prófan-heilaga“
og „litla heilaga“ sem felur í sér veraldleg og einstaklingsbundin fyrirbæri sem
tengir ákveðna „helgi“ við þótt sú helgi vísi ekki til neinnar trúarhefðar sem
skapar merkingarheim sem sé sameiginlegur einhverjum tilteknum hópi né
vísi til trúarlegs veruleika yfir höfuð.42 Er einkum átt við þá tilfinningu að falla
inn í stærra samhengi eða vera í jafnvægi við umhverfi sitt. Sýnir orðnotkunin
að þrátt fyrir að málfar trúarinnar hafi að verulegu leyti misst merkingu sína í
veraldarvæddu samfélagi samtímans geta menn illa án þess verið þegar rætt er
um þörf fólks fyrir athvarf frá hversdeginum með áreitum hans og skyldum.
Rétturinn til „góðs/langs“ tíma
Hér skal sú skoðun látin í ljós að sérhver einstaklingur eigi rétt á að lifa reglu-
lega „góðan/langan“ tíma. Er hér litið á það sem almenn mannréttindi að svo
41 Mögulegt er að líta á hið heilaga sem það er liggur utan hins hversdagslega. Þessi skilgreining þarf ekki að fela í
sér neina trúarlega vísun. Með hinu heilaga er aðeins átt við undantekningarástand eða — fyrirbæri sem einstakl-
ingar, hópar eða heil samfélög upplifa sem rof á hinu hversdagslega, tímanlega eða breytilega. Þar með beinir hið
heilaga, í hverju sem það kann að felast, sjónum frá hinu lítilfjörlega eða hégómlega, því allra tímanlegasta, að
hinu sem skiptir meira máli. Upplifúnin af hinu heilaga, gefur því einstaklingum eða hópum nýja sýn á lífið og
tilveruna sem öðlast við það dýpri merkingu eða gildi. Hið heilaga sem kemur slíkum rofúm eða andartökum
sannleikans til leiðar er oft - ekki síst nú á dögum og í vestrænum samfélögum - algerlega veraldlegt fyrirbæri
út frá hefðbundnum trúarbragðafræðilegum sjónarhornum séð öfugt við það sem áður gerðist og gerist í trúar-
lega mótaðri samfélögum. Þar vísar hið heilaga oftast til handanlægs veruleika. Af fyrrgreindum ástæðum er oft
rætt um „hið veraldlega heilaga“ en það eru tímanleg eða veraldleg fyrirbæri sem af einhverjum oft einstakling-
sbundnum ástæðum koma til leiðar reynslu af því tagi sem hér að framan er lýst. Skárderud 2004: 62, 153.
42 Wikström 1997, s. 79, 91 o. fl. staðir.
126