Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 137
var Pílatus þekktur fyrir afar harðneskjulega stjórnunarhætti. Hvort tveggja
leiðir líkur að því að krossfesting Krists hafi verið mjög kvalafull. Það er þó
fátt sem bendir til þess að Kristur hafi fengið hörkulegri meðferð en aðrir sem
enduðu líf sitt á krossi. Vegna þeirrar reynslu sem fólk hafði af krossfestingum
var óhugsandi fyrir hið nýja trúarsamfélag að birta myndir af Kristi á kross-
inum. A fyrri hluta fjórðu aldar lét svo Konstantínus keisari, af virðingu við
Jesú Krist, banna að afbrota- og uppreisnarmenn yrðu teknir af lífl með kross-
festingu. Eftir að hætt var að nota krossfestinguna sem aftökutæki og kristin
trú hafði hlotið viðurkenningu yfirvalda, virðist uppruni krossins smátt og
smátt hafa fallið í gleymsku, og í kjölfarið leysti krossinn pyntingartæki af
hólmi sem sigurtákn.5
Kristur á krossinum, og hvað svo?
í ritum Nýja testamentisins má finna mörg dæmi um leit hinna kristnu að
ásættanlegri túlkun á krossi Krists, en samkvæmt Páli postula var krossfesting
Krists hneyksli í augum Gyðinga og heimska að mati „heiðingja“ (1 Kor 1.23).
Til þess að tjá það sem gerðist á krossinum voru myndlíkingar og tákn meðal
annars sótt á þrælamarkaðinn, í musteri Gyðinga, á vígvöllinn og í dómssal-
inn, auk þess sem áhrifin af krossdauða Krists voru túlkuð í ljósi reynslunnar
af hjónabandi, ættleiðingu, vinskap og lækningum.6 Þegar túlkunarsagan er
til umfjöllunar er mikilvægt að hafa tvennt í huga. I fyrsta lagi hefur kristin
kirkja aldrei valið eina ákveðna túlkun á krossdauða Krists. I stað þess hafa
margir túlkunarmöguleikar fengið að standa hlið við hlið, þó að sumir hafi
vissulega verið meira áberandi en aðrir. I öðru lagi ber að líta á eðli mynd-
málsins, þar sem hjálpræðiskenningarnar notast við myndir og líkingar til
þess að tjá veruleika sem er að einhverju leyti hulinn og ekki verður tjáður
á annan hátt. Að þessu leyti eru kenningar um hjálpræði og frelsun á engan
hátt frábrugðnar öðrum viðfangsefnum guðfræðinnar, þar sem tungutak guð-
fræðinnar byggist að meira eða minna leyti á líkingamáli.
5 Sjá Ramshaw 2002, 122-129.
6 The Westminster Dictionary of Christian Theology 1983, 487.
135