Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Side 184
fylgja vonir um að skýrara og skilvirkara kerfi verði komið á, sem auðveldi
þeim úrskurðaraðilum, er málið varðar, að komast að viðunandi niðurstöðum,
og styrki um leið réttarstöðu og réttaröryggi starfsmanna og trúnaðarmanna
Þjóðkirkjunnar. Athyglisvert er, að þar er lögð mikil áhersla á sáttastarf innan
kirkjunnar, og því sniðin ákveðin ‘umgjörð’ í starfsreglum, auk þess sem ný-
mælin um skilgreiningu á friðarskyldu og jafnframt um sáttaskyldu á frumstigi
ágreiningsmála, sem vísa beinleiðis til grunnhugmynda kristinna kirkjudeilda
um ‘sýnilega’ mynd og virkni kærleiksboðskapar kirkjunnar, eiga jafnframt að
styrkja sátta- og úrlausnarferli það, sem fjallað er um í frumvarpinu.
Islenskum lögfræðingum, sem og mörgum öðrum, ætti að vera vel kunnugt
orðtækið „Betri er mögur sátt en feitur dómur.“ I því felst sannleikur, sem er
til samræmis við langa reynslu og dýrkeypta mannþekkingu þeirra, sem hafa
þann starfa að fjalla með faglegum hætti um mannlega bresti og afleiðingar
þeirra og leitast við að finna þolanlegar lausnir á viðkvæmum ágreiningsmál-
um. I sáttinni felst venjulega, að báðir deiluaðilar verða að horfa í eigin barm,
viðurkenna málsástæður gagnaðila að einhverju marki, gefa eftir í nokkrum
mæli og slá af ýtrustu kröfum. Segja má, að í þessu felist tækifæri og kostir,
sem samræmist vel „gullnu reglunni,“ kjarna kristinnar siðfræði, sem fyrr var
vikið að á þessum blöðum. Frá sáttaborðinu geta báðir málsaðilar gengið með
fullri reisn, þegar vel tekst til. Þar er ekki rétt að tala um „sigur“ eða „ósigur.“
Víst eru þess dapurleg dæmi, að menn hafi ekki haldið sættir sínar, gerst frið-
rofar, en flestir sjá þó sóma sinn í því að virða gerða sátt.
Við samningu úrskurðar um deiluefni - sem nauðsyn réttlætir þegar önnur
úrræði hafa brugðist - eru hins vegar sjaldnast tök á að fara milliveg, eins og
sáttin býður upp á. Niðurstaða fæst að vísu en hún kann að vera ‘hörð’ og fel-
ur venjulega í sér að annar málsaðilinn vinnur mál sitt en hinn tapar því. Með
því er — í viðkvæmum málum eins og ágreiningsmál á vettvangi kirkjunnar
eru gjarna - sá aðilinn, sem bíður lægri hlut, niðurlægður með vissum hætti
gagnvart meðbræðrum sínum og -systrum. Það skilur eftir ör, sem óvíst er að
nokkru sinni grói, jafnvel þótt kyrrt megi heita á yfirborði - og ekki er heldur
útilokað að hugað verði að ‘gagngjaldi,’ þótt síðar verði. Þannig er ekki víst, að
sigurinn, sem felst í ‘feitum dómi,’ verði þeim, sem mál sitt vinnur, jafnt sætur
til langframa og ætla mætti í fyrstu.
182