Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Qupperneq 242
sama og kynmök, hún fjallar ekki einvörðungu um kynferðislega fullnægingu,
hún er ekki heildarútkoma ástarlífs okkar. Vissulega geta þessir þættir verið
hluti kynverundar, en kynverund er miklu meira: hún er sá kraftur sem hvetur
okkur til að finna ást, samband, hlýju og nánd; hún lýsir sér í skynjun okkar,
hreyfmgu og snertingu. Hún fjallar um næmni, einnig á sviði kynlífs. Kyn-
verund hefur áhrif á hugsanir, tilfinningar, athafnir, samvinnu og þar með
andlegt og líkamlegt heilbrigði. Heilbrigði er grundvallarmannréttindi allra og
kynheilsa er hluti þeirra réttinda.9 (lausleg þýðing mín)
Eins og sjá má er hugtakið kynverund skilið víðari skilningi en svo að hægt sé
að ná yfir alla merkingu þess með íslenska orðinu kynlíf, sem yfirleitt er skilið
sem kynmök.IH íslenska orðið kynverund er tilraun til að ná yfir bæði veru og
vitund manneskjunnar, til þessarar grundvallarþarfar hennar til að tengjast
annari manneskju í kynlífi, ást og nánd. Samkvæmt þessum skilningi er kynlíf
hluti kynverundarinnar, en ekki hún öll."
Mótun ofangreindra hugmynda um kynverund og kynheilsu á sér stað
á sama tíma og Nelson skrifar bók sína Embodiment. Mér finnst trúlegt að
hann hafi þekkt til þess sem var að gerast, t.d. á bandarískum vettvangi þótt
hann vitni hvorki í skýrslur né yfirlýsingar þar um.12 Hvað sem því líður má
ljóst vera að siðfræðileg staðhæfing Nelsons um kynverundina og mikilvægi
hennar fyrir mennskuna er samhljóma hugmyndum kynfræðinnar og hug-
myndum alþjóðlegra heilbrigðisstofnana á þessum tíma, hugmyndum sem
hafa verið fínslípaðar á alþjóðlegum þingum allt til þessa.
Ein helsta viðbótin sem átt hefur sér stað á allra síðustu árum er sterk-
ari áhersla á kynverundarréttindi manneskjunnar sem séu sammannleg og
hluti af almennum mannréttindum. Árið 1999 samþykktu Alheimssamtök
um kynfræði (WAS) ályktun um kynverundarréttindi (e. sexual rights) og
9 Langfeldt T., & Porter, M., Sexuality andfamily planning: Reportofa consultation and research findings. Regional
officefor Europe. (World Health Organization: Copenhagen 1986)
10 Auðvitað er það til, einkum meðal fræðifólks á sviði kynheilbrigðismála, að kynlíf hafi breiðari skírskotun, en
algengast er, að mínu mati, að fólk setji samasemmerki milli kynlífs og kynmaka.
11 Ég er meðvituð um að gagnrýna má orðið verund íyrir að vísa of sterklega til eðlishyggju (lat. natura og essentia),
ekki síst til kenninga Aristótelesar um manneðlið. Ég hræðist þetta þó ekki í þessu samhengi heldur er það
einmitt svo að ég vil leggja áherslu á að kynverundina eiga allar manneskjur sameiginlega og að einhverju leyti er
hún stöðug hvað sem líður menningu og tíma.
12 Nelson skýrir frá því að hann hafi unnið bók sína í nánu sambandi við sérfræðinga á sviði kynverundar a.v. innan
kirkjudeildar hans, The United Church of Christ og h.v. „The Program in Human Sexuality“ við læknadeild
Háskólans í Minnesota.
240