Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 249
og kona, endurspegli manninn í mynd Guðs. Aðeins sem tvennd séu karl og
kona adam andspænis Guði. Þau endurspegli manneskjuna sem slíka aðeins í
samruna sínum í hjónabandinu. Þessi samruni byggði á því að þau væru eðl-
isólík. I huga Barths var karlmaðurinn leiðandi og ráðandi aðilinn í sambandi
kynjanna, en konan hin fylgjandi og undirgefna. Þótt Barth, Brunner og
Thielicke,30 hafi litið á hin ráðandi samfélagstengsl karls og konu sem yfirlýst-
an vilja Guðs, hafa síðari tíma guðfræðingar valið að túlka þessa hugmynd
svo að hún endurspegli jafnrétti og gagnkvæmni í sambandi kynjanna. Hirð-
isbréfið fellur vissulega í þann flokk. Kynjaandstæðuhugmynd Barths er þó
enn til staðar. Sú hugmynd sýnir sig vera tvíeggjaða. Staðhæfing hennar felur
jafnframt í sér rökin gegn því að tveir einstaklingar af sama kyni geti gengið í
hjónaband. Hin guðfræðilegu réttu tengsl eru einfaldlega ekki til staðar, sam-
fellu andstæðnanna vantar. Tveir hommar eða tvær lesbíur eru einstaklingar,
ekki umrædd kynjatvennd. Sambúð þeirra hlýtur því að ganga út á eitthvað
annað en hjónaband karls og konu. Ef litið er á karla og konur sem andstæður,
sem ólíka helminga sem smelli saman í eina heild í hinu kristna hjónabandi,
eru þar komin mikilvæg rök gegn hjónabandi homma og lesbía.
Andstæðuforsenda hjónabandsins byggir á því, eins og áður sagði, að karl
og kona séu ólík frá hendi skaparans. Kynjaandstæðukenning hefur verið
gagnrýnd í kvenna- og kynjafræðum í meira en fimmtíu ár. Sú gagnrýni hefur
einkum beinst að þeim þröngu og einhæfu hlutverkum sem konum eru ætluð
í samfélaginu, sé gengið út frá þeim.31 Sagnfræðingar sem beita kynjafræðilegri
túlkun hafa bent á að aukin áhersla á ólíkt eðli kynjanna sé andsvar nútímans
við lýðræðishugmyndum sem hefðu lögum samkvæmt átt að geta gert konum
kleift að líta á sig sem einstaklinga til jafns við karla.32 Femínísk guðfræði hef-
ur tekið undir þessa gagnrýni og tekið til þess hve karlguðfræðingar sem skrifa
30 Þessi staðhæfing á aðeins við að vissu marki hjá Thielicke, eins og rannsókn mín á hjónabandssiðfræði hans sýnir,
sjá Sólveig Anna Bóasdóttir, Violence, Power, andJustice. A Feminist Contribution to Christian Sexual Ethics (Acta
Universitatis Upsaliensis: Uppsala 1998), kafli 3.
31 Simone de Beauvoir, The Second Sex. (þýðing H.M.Parshley á Le deuxiéme sexe 1949) (London 1950); Mary
Daly, The Church and the SecondSex, (Beacon Press:Boston 1968).
32 Sigríður Mattíasdóttir bendir á að fram að lokum 18. aldar hafi skilgreiningar og lýsingar á körlum og konum
aðallega fjallað um félagslegar lýsingar á stöðu fólks, sem t.d. eiginmanna og eiginkvenna. Það, að farið var að
nota þúsund ára gamlar hugmyndir um náttúrulegt eðli kvenna til að lýsa þeim frá og með lokum 18. aldar hafi
verið nýsköpun nútímans. Sjá, nánar Sigríður Mattíasdóttir, „Aðferðir og kenningar kynjasögunnar. Þróun og
framtíðarsýn“ í 2. IsUnska Söguþingið, 2002, ráðstefnurit 1. s 38.