Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Síða 254
að hvaða kyni ást þeirra beinist, svo og því hvernig manneskjur fjölga sér44 og
álykta í framhaldinu um verðleika sumra en ekki annarra til hjónabands. Það
er persónan en ekki hvers kyns persónan er sem skiptir öllu máli. Niðurstaða
mín er því sú að fjölgunarforsendan sem ég hef kallað svo, sé ekki gild ástæða
til að útiloka homma og lesbíur frá því að ganga í hjónaband.
Margt er líkt með skyldum
I kristinni guðfræði er rík hefð fyrir því að líta á Guð sem löggjafa og að op-
inberaður vilji hans eigi að stjórna hverju fótmáli kristins manns. Sé gengið
út frá slíkri guðsmynd liggur nærri að skilja kristna siðfræði sem boðorð og
reglur fyrst og fremst sem hinum kristna manni beri að fylgja í einu og öllu.
Slík lögmálsbundin siðfræði hefur víða verið gagnrýnd og bent á að krist-
in siðfræði í fræðilegri vinnu sinni ausi úr fleiri viskubrunnum en Biblíunni
einni.4, Algengt er að benda á a.m.k. fjórar mismunandi heimildir með sér-
stakri áherslu á þekkingu á manninum: Biblíuna, hefðina, heimspeki og sam-
tíma vísindi um manninn og samfélagið.46
Christine Gudorf gagnrýnir hefðbundna kristna kynlífssiðfræði fyrir að
leggja of mikið upp úr vægi Biblíunnar og vera of gagnrýnislaus varðandi
fjórðu heimildina hér að ofan, þ.e. nútíma vísindi um manninn og samfélagið.
Með því að leggja svo mikið upp úr vægi Biblíunnar viðhaldi kristin siðfræði
neikvæðri kynlífshefð kristninnar, hefð sem eigi rætur í karlveldishugmynd-
um, gagnkynhneigðarhyggju og kynjahyggju. Hvað varði hinar vísindalegu
heimildir um manneskjuna og samfélagið í samtímanum undirstrikar Gud-
orf að allur skilningur á manneðlinu, þ.á m. manneskjunni sem kynveru, sé
félagslega og menningarlega mótaður. Vísindalegar skoðanir á manneðlinu
eða eðli samfélagsstofnana megi því aldrei skoða sem algildan sannleika, held-
ur þurfi ætíð að líta þær gagnrýnum augum.47
Ég tek undir þessa skoðun Gudorf og tel að hún hitti mjög í mark varðandi
44 Orðalag mitt hér vísar til mismunandi aðferða við að eignast börn, s.s. tæknifrjóvgun, ættleiðingar íyrir utan
hina venjulegu aðferð.
45 Lisa Sowle Cahill, Sex, Gender & Christian Ethics. (Cambridge University Press: Cambridge 1996)
46 Sbr. Göran Bexell og Carl-Henric Grenholm í bókinni Siðfrœði af sjónarhóli guðfraði og heimspeki (Skálholts-
útgáfan, Siðfræðistofnun: Reykjavík (1997) 2001)
47 Christine Gudorf, Body, Sex, andPleasure, 5.-7. kafli.
252