Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2007, Page 262
skynsamlegar leiðir að markmiðum og er ákvörðun lokastig ráðagerðar. Val er
afráðin þrá, segir Aristóteles. Hann útlistar lykilhugtök verklegrar skynsemi,
kunnáttu í tæknilegum efnum og hyggindi í siðferðilegum efnum, út frá ráða-
gerð. Það er aðalsverk kunnáttumanna að ráðgera kunnáttusamlega á sínu
sviði og hinna hyggnu að ráðgera skynsamlega um þau efni er varða dygð og
farsæld á sviði siðferðis og stjórnmála.
í pólitískum efnum má stundum hugsa sér að best væri ráðgert með ein-
stökum kunnáttusömum mönnum eða jafnvel einum hyggnum. I greininni
„Samlagning" eftir Sigurð Nordal færir hann sannfærandi rök fyrir því að
vitið aukist ekki endilega eftir því sem fleiri leggja á ráðin um málin. Sigurður
byggir málflutning sinn „á því einfalda lögmáli, að á sviði vitsmunanna eru
tveir og tveir ekki fjórir. Þar verða herskarar miðlunganna að lúta í lægra haldi
fyrir einum manni fullgildum1'.9 Og fagleg vinnubrögð í stjórnmálum byggja
oft á þessu. Við effirlátum hinum kunnáttusömu á vissu sviði ákvarðanir, svo
sem um hvaða málverk eigi að kaupa á listasöfn sem kostuð eru af almannafé;
lýðræðið er þá fólgið í eftirlitinu með kaupunum.
En þótt við getum og okkur beri í raun að starfa svona á vissum sviðum
stjórnmála — það kallast fagleg vinnubrögð — þá eftirlátum við að sjálfsögðu
ekki einstökum hyggnum mönnum allar pólitískar ákvarðanir; þá byggjum
við raunar við menntað einveldi en ekki lýðræði. Samtímagagnrýnin á póli-
tískar ákvarðanir er hins vegar oft sú að við eftirlátum fáeinum misvitrum
mönnum allar pólitískar ákvarðanir, sbr. umræðu um foringjaræði. Þótt at-
hugasemd Sigurðar Nordal í „Samlagningu“ sé mikilvæg og oft sé betra að fáir
eða jafnvel einn ígrundi og ákvarði fremur en margir, þá varðar þetta einkum
þau efni þar sem vitið knýr á um réttar niðurstöður, þ.e. þegar fjallað er um
eiginleg þekkingarefni. I þessu tilliti leika sérfræðingar mikilvægt hlutverk í
lýðræði. En stjórnmál snúast að miklu leyti um vildarefni, um hvað við viljum
gera og hvert við kjósum að stefna - og þótt æskilegt sé að þær ákvarðanir
séu vel upplýstar um þekkingarlegar forsendur þá leysir sú þekking menn
ekki undan þeirri ábyrgð að taka ákvörðun. Tækniræði eða sérfræðingaræði
einkennist meðal annars af því þegar ekki er greint nægilega skýrt á milli
greiningar á staðreyndum mála og mats á því hvað ber að gera. Úrlausnarefnin
9 Sigurður Nordal, „Samlagning", Áfangar I (Reykjavík: Helgafell 1943), s. 239.
260