Skagfirðingabók - 01.01.1986, Side 68
SKAGFIRÐINGABÓK
eða laust norðan við hann“ segir Björn Egilsson frá Sveinsstöð-
um, einn sögumanna þáttarhöfundar, „sáu þau einhverja þúst í
eyrarodda.“ Bóndinn reið þá yfir í eyrina, og tók kvíslin
hestinum í kvið og var ströng. Bóndi sat jarpan hest „sem var
sjónhræddur og fælinn . . . Þegar Jarpur kom yfir í eyrina fór
hann að blása og frýsa og engin leið að koma honum nálægt því
sem hann sá í eyraroddanum“. Bóndi steig þá snarlega af baki,
en hesturinn var fljótur að hafa sig aftur vestur yfir kvísl-
ina.
I eyraroddanum lá lík á grúfu. Manninum brá mjög er hann
sá þar Ingibjörgu frá Goðdölum, því hann var í vináttu við fólk
hennar. Hann tók líkið í fang sér og bar það yfir um kvísl-
ina. Jarpur stóð þar rammstaður og til engrar hjálpar.
Maðurinn kunni ekki annað ráð en skilja líkið eftir þarna,
klæddi sig úr jakkanum sínum og breiddi hann yfir það. Betri
umbúnað gat hann ekki veitt því að sinni. Hann sneri síðan
heim aftur, en kona hans hélt ferð sinni áfram að Teigakoti.
Bóndinn sem hér átti hlut að var Vilhelm Jóhannsson í
Litladalskoti, og sagði hann sjálfur greinilega frá öllu þessu
mörgum árum seinna, 1972.
I Litladal, næsta bæ við Litladalskot, bjó faðir Vilhelms. Þeir
feðgar réðu nú ráðum sínum og héldu svo af stað saman að
sækja lík Ingibjargar, þar sem það hvíldi í mölinni við Vötnin.
Jóhann reið gráum hesti, stilltum. Hann reiddi líkið fyrir
framan sig heim í Litladal, „og hallaðist það að barmi hans eins
og þegar barn er reitt“.
Þeir feðgar lögðu líkið í stofu sunnan bæjardyra. Daginn eftir
komu að Litladal þær Helga, systir hinnar látnu, og Krist-
ín Jósefsdóttir. Líkið var þó ekki flutt að Goðdölum fyrr en
þremur eða fjórum dögum seinna. Þá kom fólk framan að með
kistuna. Hún var sett á kerru sem kassinn hafði verið tekinn af,
þannig að hún hvíldi á grindunum milli hjólanna. Farið var eftir
vegi yfir Tunguna þvera sunnan Reykja og þaðan að Goð-
dölum.
66