Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 18
SKAGFIRÐINGABÓK
Hefi [eg] notið góðs samlyndis við sýslubúa mína og
eignast vináttu margra góðra manna.
Skömmu eftir að Sigurður tók við sýslumannsembætti í
Skagafirði urðu harkaleg pólitísk átök í landinu, og sneiddu þau
ekki hjá Skagafirði fremur en öðrum stöðum. Kynslóðaskil
urðu, og nýir menn tóku við stjórnartaumum. Framsóknar-
flokkur vann mikinn kosningasigur 1927 og myndaði nýja
ríkisstjórn, en Ihaldsflokkurinn laut þá í lægra haldi. Þó að
Sigurður sýslumaður væri þá aðeins um miðjan aldur, var hann
að uppruna og uppeldi afsprengi eldri stjórnarstefnu og hlaut
nú ennfremur að verja stétt sína og stöðu. Varð hann eindreginn
stuðningsmaður Ihalds- og síðar Sjálfstæðisflokks. Beitti hann
mjög áhrifum sínum í þágu flokksins, þó að hann sæktist ekki
eftir pólitískum frama. Meðal þeirra, sem nýir valdhafar beindu
að spjótum sínum, voru einkum embættismenn og ekki sízt
þeir, sem fóru með framkvæmd laga og réttar. Attu ýmsir þeirra
um sárt að binda á fyrri embættisárum Sigurðar. — Þó að hann
nyti ekki mikilla vinsælda valdhafa um nokkurra ára skeið, varð
nýi tíminn honum aldrei að verulegu fótakefli, enda var emb-
ættisfærsla hans jafnan slík, að andstæðingar fundu ekki á
honum höggstað. Naut hann ætíð almenns trausts fyrir réttsýni
í stöðu sinni, sáttfýsi og mannskilning. Dómar hans þóttu til
fyrirmyndar, vandaðir á alla grein og sterkum rökum studdir.
Þeir munu hafa staðizt mjög vel fyrir Hæstarétti, ef áfrýjað var.
Þó að Sigurður sýslumaður sinnti skyldustörfum sínum af
mikilli alúð og nákvæmni, varð hann þó aldrei gróinn við
skrifborðsstólinn eða sess embættismannsins. Hann var í eðli
sínu mesti framfaramaður og lét sér ekkert óviðkomandi, sem
snerti hag sýslufélagsins og var þar sífellt á varðbergi. Slíks
finnast mörg dæmi, til að mynda í bréfum til vinar hans, Jóns
Sigurðssonar alþingismanns á Reynistað, þar sem hann ræðir
m.a. atvinnumál, samgöngumál og skógrækt, svo að eitthvað sé
nefnt. Hann beitti líka áhrifum sínum í sýslunefnd til stuðnings
16