Skagfirðingabók - 01.01.1987, Side 34
SKAGFIRÐINGABÓK
Atburðir mánudagsins 11. apríl
Þegar lagt er saman það, sem Gísli Konráðsson hefur eftir Jóni
hreppstjóra og það, sem fram kemur í réttarhöldum, hafa atvik
verið á þá lund, sem hér á eftir verður rakið. Ef til vill verður
það óþarflega nákvæmt, en líklega er betra að segja heldur meira
en minna.
Þessa nótt, mánudagsnóttina, voru tveir næturgestir á Þang-
skála: stúlka, sem Sigríður hét Guðmundsdóttir frá Kálfshamri,
og Hafsteinn Skúlason bóndi í Neðranesi. Það gefur nokkra
hugmynd um veðurofsann á sunnudagskvöldið, að Hafsteinn
fer ekki heim til sín til næsta bæjar og þó undan veðri að sækja.
Síðla nætur vaknaði Hafsteinn og fannst þá, að veður hefði
batnað nokkuð. Hann snaraðist því á fætur og Pétur bóndi
einnig. Hafsteinn var heimfús og hélt strax af stað. Hann mun
hafa ætlað að ganga fjörur eitthvað áleiðis, og Pétur gekk með
honum niður að sjónum. Þegar þeir komu niður í fjöruna,
fundu þeir strax þrjú höfuðföt, pokagarm og eitthvað fleira
smávegis og datt þá í hug, að eitthvað fleira mundi finnast. Þeir
sneru því aftur heim að Þangskála, og Pétur vakti fólk sitt til að
ganga rekann. Þeir Hafsteinn héldu inn fjörur sem leið lá, en
fundu ekkert frekar að því sinni. Pétur gekk inn fyrir Kelduvík
og sneri þar við, en Hafsteinn hélt áfram för sinni heimleiðis.
Lilja kona Péturs og Sigríður frá Kálfshamri gengu út fjörur
og eigi langt áður en þær fundu talsvert af smjöri og selspiki.
Einnig fundu þær peysu, skinnsokk og fleiri flíkur. Þetta báru
þær allt heim að Þangskála og létu á bekk í bæjardyrum.
Litlu fyrr hafði Pétur komið heim og farið nærri strax aftur
út á reka. Ekki fer hjá því, að hann hafi mætt konunum, en það
kemur hvergi fram. Þær Sigríður og Lilja stönzuðu heldur ekki
lengi heima. Sigríður tygjaði sig til heimferðar, þó veður væri
ekki upp á það bezta, en leiðin löng. Lilja gekk með henni út
undir Hraun, en fór þaðan niður í fjöru til bónda síns.
32