Skagfirðingabók - 01.01.1987, Qupperneq 35
HAFFRÚARSTRANDIÐ
Þegar hér var komið sögu, virðist hafa verið komið að
fótaferðartíma. Jóhannes vinnumaður á Hrauni kom út og
skyggndist um. Sá hann þá tvær manneskjur í fjörunni utarlega
á Þangskálareka. Virtist honum þær haga sér líkt og gengið væri
á reka og bjargað undan sjó. Hann lét húsbónda sinn vita af
þessu, en hann bað aftur Jóhannes að fara út undir Múla og
athuga, hvað um væri að vera. Jóhannes kom fljótt til baka og
sagði svo frá, að hann hefði fundið skipsrá og fleira, sem benti
til þess að skip hefði farizt þar skammt undan landi þá um
nóttina eða kvöldið áður. Þá sagðist hann og hafa séð Þang-
skálahjón ganga inn fjöruna, Lilju nokkuð á undan, og hefði sér
virzt hún bera eitthvað í fangi sér.
Jón bóndi og Jóhannes gengu nú báðir austur að sjónum. Jón
fór inn að merkjunum, þar sem saman koma rekar Hrauns og
Þangskála, en Jóhannes fór nokkru utar á Hraunsreka, út undir
Múlanum. Þá var Pétur kominn nokkuð út fyrir merkin og á
Hraunsreka. Þegar hann sá til ferða Jóns, gekk hann inn
fjöruna, þar til þeir mættust. Strax og þeir hittust spurði Pétur,
hvað mundi verða um þennan reka, hvort það mundi vera
vogrek, eða eign þess, sem fjöruna ætti. Jón svaraði því einu til,
að hann væri ekki að hugsa um það heldur aðeins að reyna að
bjarga sem mestu undan sjó. Hitt mundi síðar vitnast, hvað um
rekann yrði.
Þeir skildu svo þarna við merkin. Jón hélt út fjöru til móts
við Jóhannes, en Pétur inneftir í átt til Lilju og Hólmfríðar
vinnukonu, sem voru farnar að bisa við einhvern reka.
Þegar Jón hitti Jóhannes, bað hann hann að fara heim og
senda þaðan vestur að Víkum að biðja Jón hreppstjóra að koma
hið snarasta út að Hrauni vegna atburða, sem þar hefðu gerzt.
Sjálfur fór hann aftur inn fjöru allt inn á Þangskálamalir til
Péturs og kvennanna tveggja og hjálpaði þeim að draga upp
kaðla- og seglaþvælu. Þá fór Pétur aftur að tala um, hver mundi
eignast þennan reka. Jón svaraði því til, að hreppstjórinn væri
að koma og hann mundi betur geta svarað þessu.
33