Skagfirðingabók - 01.01.1987, Qupperneq 40
SKAGFIRÐINGABÓK
hann beið komu Magnúsar, skrifaði hann frásögn af þessum
atburðum, lýsingu mannanna og fatnaðar þeirra og sitthvað
fleira. Þá skrifaði hann og allt, sem borið hafði verið heim að
Þangskála af rekanum. Aminnti hann þau Pétur og Lilju
strengilega, að þau framvísuðu öllu, sem inn í bæ þeirra hefði
komizt af strandinu. Jón á Hrauni var honum til aðstoðar við
þetta allt.
Svo er að skilja, að enn hafi verið ókunnugt um, hvaða skip
þetta var. Þess vegna skrifar Jón þessa lýsingu, ef hægt væri eftir
henni að átta sig á, hvaða skip væri um að ræða. Þó hefur verið
talið víst, að skipið hafi komið austan yfir Skagafjörð. Magnús
kom að áliðnum degi, og Jón hreppstjóri samdi við hann um
ferð „norður í Fljót eða lengra“. Hann hefur raunar átt að leita
að uppruna skipsins og byrja í Fljótum, en halda síðan áfram.
Hreppstjóri afhenti honum skýrslu þá, er hann hafði skrifað, og
einnig bréf, sem hann átti að færa Páli presti í Hvammi
Jónssyni. Magnús hefur trúlega farið heim aftur að kvöldi,
tygjað sig til ferðar og lagt af stað á miðvikudag. Hann hefur
þurft nokkurn tíma til heimanbúnaðar, því leiðin er löng og gat
orðið erfið.
Enn gerði hreppstjóri út sendimann á miðvikudag. Nú sendi
hann eftir Guðmundi Einarssyni, sem þá var húsmaður á Ytra-
Mallandi, og Vigfúsi Vigfússyni lausamanni. Hann var stjúp-
sonur Guðvarðar Þorlákssonar bónda í Ketu og var staddur þar
heima. Þessir menn voru báðir smiðir góðir, og hreppstjóri fól
þeim að smíða líkkistur, því sýnilegt var, að ekki gat Hafsteinn í
Neðranesi lokið því verki einn. Þá réði hreppstjóri Sigurð
Jónatansson bónda í Efranesi sem vöktunarmann. Atti hann að
sjá um þann reka, sem enn var í fjöru og hirða það, sem enn
kynni að bera að landi. Sjálfur var hreppstjóri laus við, lagði
hönd að verki þar sem þurfti og leit eftir öllu, þessu máli
viðkomandi.1
1 Gísli Konráðsson.
38