Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 44
SKAGFIRÐINGABÓK
Miðvikudaginn 20. apríl voru allar kisturnar tilbúnar, og
sama dag undir kvöld komu þeir Páll og Þorleifur með menn
sína. Þótti þeim hafa verið vel að unnið og luku miklu lofsorði á
Skagamenn fyrir dugnað þeirra og góðvild.
Fimmtudaginn 21. apríl — sumardaginn fyrsta — voru líkin
kistulögð. Páll og Þorleifur sögðu fyrir um, hver var hver.
Virðist dagurinn hafa farið í þetta starf og ef til vill einhverja
athugun á rekanum. A föstudaginn voru líkin flutt inn að Ketu
til greftrunar. Það hefur verið erfiður dagur. Fyrst varð að bera
kisturnar inn í Kelduvík og koma þeim um borð í báta. Notað
var skip Siglnesinga og annað af Skaganum. Skipunum var róið
inn í Mallandsvík, en þaðan varð aftur að bera kisturnar að
Ketu. Þótti þá orðið þröngt í Ketukirkju, þegar búið var að raða
þar ellefu líkkistum. Tekið er fram, að þær hafi verið stórar og
sterklegar. A laugardag var tekin ein gröf að þeim öllum í
norðausturhorni kirkjugarðsins. Var gröfin fullar sex álnir
danskar á hvorn veg. Yfir tuttugu menn unnu að grafartektinni.
Séra Páll í Hvammi jarðsöng og hélt góða ræðu. Gaf hann
hálfan líksöngseyri og Guðvarður bóndi í Ketu hálft legkaup.
Grafarmenn gáfu sína fyrirhöfn alla. Þá eru sérstaklega nefndir
Eggert Þorvaldsson bóndi á Skefilsstöðum op Þorsteinn á Sæv-
arlandi, að þeir hafi gefið eitthvað ótiltekið. Ovíst er, hver þessi
Þorsteinn á Sævarlandi hefur verið. Hann var ekki bóndi, en
gæti hafa verið húsmaður eða lausamaður.1
Eftir athöfnina veitti Jón hreppstjóri og þeir Páll og Þorleifur
mönnum hressingu góða, og var þá tekið upp léttara hjal eftir
margvíslegt erfiði undanfarna daga. Allt hefur þetta vafalítið
tekið á taugar manna bæði líkamlega og andlega. Mönnum
hefur því ekki veitt af að hressa sig vel, þegar þessu var lokið.2
1 Á Sævarlandi er nokkurt árabil um og eftir 1860 til heimilis Þorsteinn
Arason, ýmist kallaður húsmaður, lausamaður eða vinnumaður. Hann er
sagður 25 ára við aðalmanntal 1860, fæddur í Fagranessókn. Ritstj.
2 Gísli Konráðsson.
42