Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 63
UM GÍSLA KONRÁÐSSON
sumur í kaupavinnu. Sjötugur hætti Gísli allri útivinnu og gat
nú skrifað vetur jafnt sem sumar og þótti nú sem komið væri að
hádegi ævi sinnar. Guðrún dó vorið 1858, 42 ára að aldri; Gísli
var þá 72 ára.
Eftir að Gísli settist að í Flatey, fékk hann til eignar sunnan til
á eynni hálft hús, sem kallað var Norskabúð. Þar var þröngt um
skrifarann Gísla, lítið borð við rúmgafl, hlaðar af bókum og
handritum; gestir tylltu sér á koffort. Skrifarinn gerði lítinn
mun dags og nætur. Hann viðaði að sér heimildum um íslenzka
sagnfræði, endurritaði verk um þau efni og rakti garnirnar úr
koffortsmönnum. Ættartölur skrifaði hann svo margar, að
hann mundi það ekki sjálfur. Sigurður Ingjaldsson frá Bala-
skarði heimsótti Gísla í Norskubúð sumarið 1872 og hefur lýst
því í ævisögu sinni:
Við heilsum honum með mikilli lotningu, og tekur hann
því glaðlega. Eg gleymi þeirri sjón aldrei. Hann var heldur
lágur vexti, enda sat hann, svo ég sá ekki vöxt hans eins
vel. Hann var hvítur af hærum. Sat hann á stól við
ofurlítið borð og var að skrifa. Þarna inni var svolítil
rúmkytra, en herbergið var svo lítið, að við gátum varla
staðið þarna hjá honum. Hann var klæddur loðinni
skinnpeysu, og var þó sólskin og hiti. Hann skrifaði
gleraugnalaust. Eg horfði á hann, en sagði ekkert. Eg var
hissa að sjá þessi hvössu og skæru augu í svo gömlum
manni.1
A þessum árum skrifaði Gísli sögur og sagnaþætti fyrir Jón
Arnason þjóðsagnasafnara og átti við hann bréfaskipti, segir sér
gangi einungis fræðafýsi til, vilji stytta sér stundir í ellileiðind-
um. Og svona hélt hann áfram til hinztu stundar, skrifaði sig
inn í aðrar veraldir, sumar glæstar og glóbjartar, iðandi af lífi og
1 Ævisaga Sigurðar lngjaldssonar frá Balaskarói (Rvík 1957), bls. 201—202.
Freysteinn Gunnarsson annaðist útgáfuna.
61