Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 93
HALLDÓR JÓNSSON DÓMKIRKJUPRESTUR
um dánarbúið. Uppskriftin er 42 þéttskrifaðar síður í stóru
broti. Vegna fyrirferðar er ekki hægt að birta hana hér. Þó skal
drepið á nokkur atriði.
Síra Jón Steingrímsson segir í ævisögu sinni, að Halldór hafi
átt eftir síra Eyjólf á Völlum „miklar ágætar bækur“. I uppskrift
dánarbúsins eru skráðar yfir 200 bækur og ritverk, sem hefur
verið stórt bókasafn á þeirri tíð. I mörgum tilfellum eru tvær
eða fleiri bækur spyrtar saman: „Eitt bundt af disputatium" eða
„margar smáskruddur og miscelanea". Því hefur fjöldi einstakra
bóka og kvera verið mun meiri. Annars voru bækur Halldórs
prófasts víðar að en frá Eyjólfi á Völlum, t.d. keypti hann
talsvert á uppboði eftir Halldór biskup Brynjólfsson. Eitthvað
er af handritum í skránni, en þó færri en ætla mætti, enda er
óvíst hvað af handritum síra Eyjólfs Halldór Jónsson
átti.2 Alls var bókasafnið metið á rúma 62 ríkisdali.
Meðal silfurgripa, sem þau hjónin áttu, var silfurbúið horn,
metið á einn ríkisdal. Eign þeirra í silfri var metin á um 100
ríkisdali. Fasteignir þeirra hjóna voru þessar:
Vík, 80 hundruð að dýrleika, með tveimur kýrkúgildum á
heimajörðunni og þremur á hjáleigunum, Ögmundar-
stöðum og Glœsibœ. 255 ríkisdalir
Hólkot, með 10 aura landskuld og einu kúgildi.
43 ríkisdalir
2 Einkaerfingi Eyjólfs Jónssonar á Völlum var systurdóttir hans, Margrét,
dóttir Niels Kier lögmanns. Þegar dánarbú síraEyjólfs var virt, 3. júní 1746,
voru handrit hans afhent umboðsmanni Margrétar, Sveini lögmanni Sölva-
syni, sem sjálfur var hneigður fyrir slíka hluti. Er óvíst hvernig þeim var
ráðstafað. Sjá Annála 1400—1800 I, bls. 371, og skjalasafn prófastanna
XVIII D 1. I dánarbúi Eyjólfs voru furðu fáar prentaðar bækur. Hefur
Halldór líklega verið búinn að fá drjúgan hlut af safninu áður en fóstri hans
dó.
91