Skagfirðingabók - 01.01.1987, Side 96
SKAGFIRÐINGABÓK
þeim orðið innlyksa í dánarbúi sýslumanns, og þau hjónin ekki
haft bolmagn til að ná þeim frá erfingjunum. I erfðaskránni,
sem þau gera 54 ára gömul, tilskilja þau Hallsteinn og Þuríður
þetta: „Salvör skal veita oss uppheldi og sérhvað annað, sem
okkur er nauðsynlegt, og við megum ei án vera. Og að síðustu
skal hún syrgja fyrir [sjá um], að við verðum skikkanlega, eftir
okkar standi, jarðsett."
Úr Presbyterologiu Hálfdanar Einarssonar
Hálfdan Einarsson (1732 —1785) var skólameistari á Hólum frá
1755 til dauðadags. Þeir Halldór Jónsson voru því samtíða á
staðnum alla dvalartíð Halldórs þar. Kynni þeirra munu hafa
verið náin. Jón Helgason biskup segir svo í bók sinni Meistari
Hálfdan: „Virðist samvinnan [við dómkirkjuprestana] hafa
orðið Hálfdani hin ánægjulegasta. . . . Þeir höfðu einnig
skyldur að rækja við skólann, ekki aðeins sem sálusorgarar
skólans, heldur og sem kennarar þar, in exercitiis theologicis et
biblicis."1
Arið 1776 tók meistari Hálfdan að setja saman æviskrár
presta í Hólabiskupsdæmi. Þetta rit er venjulega kallað Presbyt-
erologia Hálfdanar Einarssonar, en Hálfdan kallaði það sjálfur,
í gamni, Hólastiftis klerkakrans. Frumrit Hálfdanar er í Þjóð-
skjalasafni (Bps. D). Þetta rit ber þess merki að vera uppkast,
eða ófullgerð samantekt. Engu að síður er hér um frumheimild
að ræða, og má rekja til þess, beint eða óbeint, nær allt sem
síðan hefur verið skrifað um Halldór Jónsson. Kaflinn um
Halldór mun saminn skömmu eftir 1776. Hann er á bls. 135 í
handritinu.
Síra Jón Konráðsson á Mælifelli samdi upp úr frásögn Hálf-
danar og fleiri heimildum, nýjan æviþátt Halldórs Jónssonar,
mikið aukinn. Þeir sem ekki hafa hug á að vita, hvaða efnisatriði
1 Þ.e. „í guðfræðilegum og biblíufræðilegum æfingum."
94