Skagfirðingabók - 01.01.1987, Side 137
AÐ FLATATUNGU
voru klofnir í flögur með þar til gerðum spöðum, síðan var
flögunum raðað upp á rönd, líkt og krakkar byggja spilaborgir,
nema hvað hér var aðeins um eina hæð að ræða. Hins vegar gátu
þessar byggingar orðið býsna langar; raunar voru því engin
takmörk sett. Þegar taðið hafði þornað, var það borið saman í
svokallaða taðhlaða, sem gjarnan voru sívalir. Var þetta svo
flutt heim í bæ, að jafnaði í kerru, en þó stundum á bakinu. I
Flatatungu var einnig notaður svokallaður svörður til eldsneyt-
is. Svarðartaka í Flatatungu var talin sérlega góð, en við upp-
töku hans sannaðist einmitt hið fornkveðna, að landið hafi
einhvern tíma verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Eitt sinn
við samantekt á túninu skeði næsta spaugilegur atburður, en þó
alvarlegur í senn. Við Oddur, ásamt öðru vinnufæru heim-
ilisfólki, vorum í óðaönn að taka saman og notuðum borð við
þetta til að flýta verkinu. Hann var á borðinu, en ég teymdi
hestinn, sem dró. Oddur var mikill reykingamaður og þar kom,
að hann þurfti endilega að fá sér í pípu. Hann greip niður í vasa
sinn, en þar var enga pípu að finna; hún var horfin í heyið. Var
nú hafin mikil leit, en þeir einir, sem hafa gefið sig á vald
nikótíninu, skilja hvað löngunin eftir því getur orðið sterk. Við
tættum sundur heybeðjurnar í þeirri veiku von að finna hinn
týnda hlut, og þar kom að lokum, eftir langa leit, að ég greip í
eitthvað hart og var kominn með pípuna í höndina. Sjaldan hef
ég séð Odd verða eins glaðan og þegar ég fékk honum pípuna.
Hann kveikti sér í hið bráðasta, en þolinmæði Einars var
stórlega misboðið. Hann gat engan veginn skilið svona lagað,
var sjálfur algjör reglumaður.
Eitt haustið fórum við Oddur að Silfrastaðarétt. Honum
þótti ákaflega gaman að fá sér í staupinu og var nú vel við skál.
Ekki man ég lengur erindi okkar, kannski hefur það ekki verið
annað en að sýna okkur og sjá aðra, því ég minnist þess ekki, að
féð frá Flatatungu kæmi nokkurn tíma í Silfrastaðarétt, enda
rennur Norðuráin þar á milli. Þegar í réttina kom, skildu leiðir
um stund, og fór hvor okkar að hitta sína vini. Þegar ég fór svo
135