Skagfirðingabók - 01.01.1987, Qupperneq 142
SKAGFIRÐINGABÓK
reka féð inn í sláturhúsið á Akureyri, og þar með var dauða-
dómurinn endanlega kveðinn upp. Þaðan slapp engin kind
lifandi. Mér er þessi ferð ennþá í fersku minni, en nú eru slíkar
ferðir lagðar niður fyrir löngu. Þær eru óhugsandi vegna hinnar
miklu bílaumferðar, sem nú er á helztu þjóðvegum landsins.
Það var vor í lofti eins og getur fegurst orðið í Skagafirði.
Oddur bóndi kom að máli við mig og bað mig að sækja fyrir sig
fisk, sem hann ætti í poka úti á Silfrastöðum. Eg tók vel í það og
fékk til fararinnar Bleikblesa, sem var orðinn nokkuð við aldur
og því heldur seinfær. Reið ég sem leið liggur norður að ánni, er
beljaði fram kolmórauð í vorleysingunum. Leizt mér nú ekki
meira en svo á blikuna, enda ekki beint vanur vatnamaður. Þó
reið ég út í ána, en fann að ég mundi fljótlega fara á sund og
fannst það satt að segja ekki álitlegt í hinum hrikalega
straumþunga. Varð mér nú hugsað margt. Átti ég virkilega að
leggja líf mitt og hestsins í hættu fyrir fáeinar fiskbröndur? Eftir
miklar vangaveltur tók ég loks þá ákvörðun að hverfa frá og
hélt sem leið lá til baka heim í Flatatungu. Oddur var heima, og
sagði ég honum mínar farir ekki sléttar; ána gjörsamlega ófæra.
Hann taldi, að svo myndi ekki vera og kvaðst sjálfur sækja
fiskinn, sem lægi undir skemmdum í þessum hita. Hann lagði á
Rauð, sem var hinn bezti gripur. Ég spurði, hvort honum væri
sama, þótt ég kæmi með norður að ánni. Mig langaði til að sjá,
hvernig honum reiddi af. Hann tók málaleitan minni vel, enda
hafði ég ekkert sérstakt við að vera, og var nú haldið að
Norðurá. Oddur reið nokkurn veginn hiklaust út í elfina, en
brátt fór allt á bullandi sund, og hestur og maður hurfu mér
fljótlega í vatnsflauminn. Gerðist nú allt með miklum hraða.
Ætli sé nú úti um þá báða, hugsaði ég, en nokkru síðar bar þá á
grynningar handan aðalárinnar. Oddur stóð þar í klofdjúpu
vatni, en hesturinn lá við hlið hans, vafalaust dauður, ályktaði
ég réttilega. Hann hafði ekki þolað hin miklu átök í beljandi
straumnum. En hvað gat ég gert til hjálpar? Ekkert. Færi ég út í
140