Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 143
AÐ FLATATUNGU
ána á þessum stað, mátti búast við, að allt færi á sömu leið hjá
mér. Kannski yrði ég ekki eins heppinn og Oddur, sem komst á
grynningar og virtist ekki í aðsteðjandi hættu. Mér fannst ég
verða að reyna að sækja einhverja hjálp og varð hugsað heim í
Tungukot, en þar bjó Þorsteinn Einarsson, bróðir Odds, vanur
vatna- og hestamaður.
Sigríður húsfreyja og börn hennar voru við ullarþvott á
eyrunum norðan Bugsins. Börnin spurðu mig, hágrátandi,
hvort pabbi þeirra væri dáinn, en Sigríður sagði ekkert. Hún var
sterkust, þegar mest á reyndi. Eg hraðaði för minni á fund
Þorsteins í Tungukoti og sagði honum tíðindin, að bróðir hans
væri í háska staddur í Norðurá. Hann söðlaði þegar hest, en í
því sáum við, að hjálp hafði borizt, líklega frá Silfrastöðum, og
fullvissuðum okkur um það með því að líta í sjónauka. Attum
við því ekkert erindi út að Norðurá eins og á stóð. Rétt er að
það komi fram, að björgunarmaður Odds var Gísli Jónsson frá
Víðivöllum, ungur maður og vaskur. Hann átti leið um þjóð-
veginn sunnan Silfrastaða og sá þaðan, hverju fram fór í
Norðurá. Var hann ríðandi og brá skjótt við. Rauð rak svo að
landi lengst niðri á eyrum. Ég talaði fátt um þennan atburð við
Odd, en sagði þó við hann, hvort honum fyndist ekki ófært að
láta Rauð grotna niður norður á eyrum og verða hröfnum að
bráð. Urðum við sammála um að sækja skrokkinn og fluttum
hann heim í hlað í Flatatungu. Þar tók ég djúpa gröf; hún þurfti
að vera mjög djúp, því að Rauður hafði stirðnað með beina
fætur. Fannst mér því sjálfsagt að láta hann standa í gröfinni.
Oddur hjálpaði mér við að koma honum fyrir, en ég tók
angandi töðutuggu og lét í gröfina hjá Rauð, enda þótt ég teldi
sennilegast, að hann væri þegar kominn í góðan haga í heimi
dýranna, handan grafar og dauða. Þegar Oddur var kominn inn
í bæ, signdi ég yfir gröfina, áður en ég mokaði moldinni yfir. A
hverju vori vaxa fögur blóm í varpanum í Flatatungu, en ætli
þau séu nokkurs staðar fegurri en einmitt á leiði Rauðs? Eg held
ekki. (Akureyri 1985)
141