Skagfirðingabók - 01.01.1987, Blaðsíða 146
SKAGFIRÐINGABÓK
farið að langa til að læra eitthvað." Þá sagði blessaður karlinn:
„Það er von, en ég má ekki missa þig, strákur minn.“ Mér
fannst þetta viðurkenning þess, að ég væri orðinn til dálítilla
nota og þótti það gott. Hinsvegar bjóst ég við, að tilgangslaust
væri fyrir mig að rökræða málið við hann, svo talið féll niður.
Haustið eftir, þegar við komum úr Staðarrétt, sagði hann
mér, að hann væri búinn að koma mér fyrir hjá séra Skafta
Jónssyni í Siglufirði frá nýári til páska. Eg þakkaði honum fyrir,
en stuttur þótti mér tíminn, rúmir þrír mánuðir. Varla yrði ég
sprenglærður á þeim tíma. Leið nú fram yfir veturnætur, fór þá
móðir mín að sauma mér föt. En viku fyrir jólaföstu var orðið
alveg haglaust vegna snjóþyngsla. Voru þá öll hross föður míns
tekin á hús og sáu varla út fyrr en á páskum. Þetta var
ísaveturinn 1881. Mér leizt ekki á blikuna, nú jukust störf okkar
pilta, þegar 30 hross komu á gjöf, og bjóst ég við, að ég mundi
ekki mega missast frá skepnuhirðingunum.
Leið nú fram að nýári. Snjórinn var svo mikill, að varla sá á
hnjót og oft stórhríðar. Faðir minn sagðist ekki voga að láta mig
fara einan í kafsnjó og ótíð, en vera að hugsa um að biðja
aukapóstinn frá Víðimýri til Siglufjarðar, sem þá var Björn
Erlendsson í Ytra-Vallholti, fyrir mig, en búizt var við, að
honum mundi seinka fyrir ótíð og feikna snjó. En 7. janúar
sáust tveir menn koma sunnan túnið, báðir á skíðum, sem var
nokkuð sérstakt, því fáir sáust á skíðum. Þeir komu svo heim á
hlaðið og báðu um að drekka. Það spurðist strax í bæinn, að
þetta væru Fljótamenn. Faðir minn venti sér út og bauð þeim
inn að fá kaffi, sem þeir þágu. Hann spurði þá að heiti og
hvernig á ferðum þeirra stæði. Annar hét Páll Arnason frá Hóli
í Fljótum, hinn Mikael1 frá Hvammi — og komu framan úr
Tungusveit, en voru nú á heimleið. Faðir minn sagðist þurfa að
koma unglingspilti til Siglufjarðar og spurði, hvort þeir væru
ekki fáanlegir til að gista og taka piltinn til umsjónar út að
1 Jónsson.
144