Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 179
VIÐ FUGL OG FISK
Mannskaðaveðrið 14. desember 1935
I desember 1935 komumst við óvenjuoft á sjó, því gæftir voru
þá betri en oftast áður um sama leyti árs. Það kom sér vel, því
atvinnulíf var fjarska dauflegt á Króknum vetrarmánuðina.
Veðurspár föstudaginn 13. desember voru allgóðar. Kl. 10
árdegis sagði, að loftvog væri „byrjuð að falla suðvestan lands.
Fregnir vantar af hafinu suðvestur undan, en sjáanlega er ný
lægð að nálgast úr þeirri átt. Norðan lands og austan er
hægviðri og góðviðri — yfirleitt V-átt. Hiti víðast 3—4 st.“
Síðdegis, kl. 3, var „Lægðarmiðja skammt suðv. af Reykjanesi á
hreyfingu norðaustur eftir. Köld N-átt á Grænl. og hætt við
kaldari loftstr. hingað til lands á morgun.“ Og sjálf spáin fyrir
allt Norðurland var á þessa leið: „SA-gola og úrkomulítið í nótt
en breytileg átt og úrkoma á morgun.“ Kl. 19.10 voru horfurnar
þessar: „Lægðin hreyfist NA-eftir og kemst líklega austur fyrir
land á morgun. Mun þá NA- og N-átt ná sér með snjó eða
slyddu nyrðra. Enn er kyrrt veður og þurrt á N- og A-landi en
talsverð rigning syðra. ..." Þessa spá heyrðu flestir og sáu ekki
ástæðu til annars en róa, nema Helgi Guðmundsson í Salnum,
sem rak sína menn heim, kvað manndrápsveður vera í aðsigi.
Næst var útvarpað veðurfregnum um loftskeytastöðina í
Reykjavík 15 mínútum eftir miðnætti: „Vindur er orðinn N-
lægur vestanlands en aðeins kaldi. Rignt hefur syðra, og á Ak.
var byrjað að snjóa. Lægðin hreyfist hratt A-eftir, en hætt er
við, að N-áttin aukist enn.“ A grundvelli þessarar lýsingar var
síðan spáð um horfur aðeins fyrir Suðvesturland og Faxaflóa til
Vestfjarða: „Allhvass N. Urkomulítið að mestu“ og Breiða-
fjörð og Vestfirði: „Vaxandi N- átt, allhvass með morgninum
og snjókoma eða slydda." Þessari spá mun Bjarni Sigurðsson
formaður á Oldunni hafa vakað eftir og ekki talið ástæðu til
annars en þeir yrðu komnir að landi áður en veður versnaði til
muna.
177