Skagfirðingabók - 01.01.1987, Blaðsíða 182
SKAGFIRÐINGABÓK
Við sáum þá á Leiftrinu, og virtust þeir langt komnir með
dráttinn. Eg sagði við Kristján, að nú skyldi hann slá í og hafa
það eins og Vellygni-Bjarni, verða á undan élinu. En við vorum
rétt lagðir af stað, þegar ósköpin dundu yfir. Eg hef aldrei séð
annað eins, sjógarðarnir komu veltandi inn fjörðinn. Þar sem
var spegilsléttur sjór fyrir augnabliki var rokið upp í brimskafla,
og blindbylur var skollinn á. Eg hafði ætlað mér að fara
grunnleiðina heim, fyrir ofan Ingveldarstaðahólmann, en sá
þegar, að hún væri kolófær vegna brotanna og sveigði til austurs
til að dýpka á mér svo við slyppum við Fagranesboðann. I slíku
veðri braut á öllum boðanum, allt frá enda hans, norður og
fram af Hólakoti, inn að Skarfasteinum, innanhallt við Fagra-
nes. Eina leiðin gegnum hann var um Músarsund, stutt fram af
Skarfasteinum, og þó með lögum, ef vel sást til. Gamlir menn
sögðu, að það hefði þótt merki um verstu aftökur, þegar boðinn
gekk, en nú er þetta algengt, þótt sjór sé ekki mikill. Landið ætti
því að hafa risið. En víkjum nú sögunni aftur um borð í Baldur.
Við lensuðum inn og austur undan ofsanum, Kristján stóð við
vélina og stýrði, ég var við pumpuna, en Steini hélt sig frammi
við lúkarskappa og rýndi út í sortann, en kom fyrir lítið, því
ekki sá glóru frá bátnum; Kristján rétt grillti í Steina frammi við
lúkarinn. Auðvitað óttuðumst við, að þessi sigling endaði á einn
veg, en Baldur varði sig einkennilega vel, og aðeins einu sinni
fengum við gusu, sem þó drap ekki á vélinni, góðu heilli.
Þegar við höfðum lensað með þessum hætti góða stund,
lónuðum við til vesturs, enda töldum við okkur lausa við
Fagranesboðann. Við vonuðumst til að fá landsýn til að geta
áttað okkur og vorum svo heppnir, að hann reif augnablik frá
Einhyrningi, og við þóttumst merkja, að við værum norðvestur
af Innstalandsskerjum. Við afréðum að fara miðja vegu milli
lands og skerja, eftir því sem unnt var að halda ákveðinni
stefnu. Og eftir þetta gekk siglingin vel. Við komum að bryggju
á háflóði, og þar var nógur mannskapur til að hífa bátinn upp.
Lykkjur voru festar í gegnum fremstu þóftu og niður gegnum
180