Skagfirðingabók - 01.01.1987, Síða 185
VIÐ FUGL OG FISK
annan veg háttað á flestum bátum: slá eða sveif var fest í stýrið
og gekk fram í bátinn, og taumarnir voru síðan festir í enda
hennar. Þá var vandalaust að ráða við stýrið.
Þegar Leiftrið sást af bryggjunni, var þegar í stað hellt olíu í
sjóinn. Nægur mannskapur var til staðar, köðlum var komið
um borð, og náðu þeir að festa þá. Síðan seiluðu þeir fiskinn út,
sem kallað var, og Björn greindi frá, en slíkt var alsiða, þegar
lenda þurfti í brimi ellegar í mokafla og seilin síðan dregin í
land. Giftusamlega tókst síðan að bjarga mönnum og bát upp á
bryggju. Brimið var geysilegt, og einn bátur brotnaði á bryggj-
unni; Baldur og Leiftur voru dregnir á þurrt land, skorðaðir
hjá gamla sláturhúsinu.
Og nú hófst biðin eftir Oldunni og Nirði. Vitaskuld héldu
menn í vonina, en flestir voru uggandi um afdrif mannanna.
Fremur bætti í hríðina en hitt, og leiðin heim hlaut að verða
þeim löng og ströng. Báðir reru um Skerjagrunnshornið, það
vissu menn síðar til víss, því til þeirra sást um morguninn úr
Málmey, áður en veðrið brast á. Menn vonuðu, að þeir hefðu
reynt að taka Austurlandið og jafnvel lukkazt það. Aldan var
yfirbyggð að framan og varði sig allvel, en Njörður var svo
útbúinn, að hægt var að draga segl yfir bátinn frá lúkar aftur að
vélarhúsi, og það gerðu þeir jafnan, þegar eitthvað var að veðri.
Seglið rann á hnúðum, sem gengu í rauf á röri meðfram
borðstokknum. Báðum megin vélarhúss var gangur, og þar
stóðu olíubrúsi, línustampar o.fl.
En Njörður og Aldan skiluðu sér ekki, og menn urðu
vondaufir. Ekki bætti úr skák, að rafmagn fór af bænum; allt
lagðist á eitt að gera biðina sem dauflegasta. Og síðla kvölds fór
að reka úr Nirði. I fjörunni austur af flakinu af Víkingi rak
kassa utan af áttavita, línustamp, olíubrúsa, bólfæri og ef til vill
eitthvað fleira. Þetta bar allt upp í fjöruna á nokkur hundruð
metra breiðum kafla, og töldu margir það vísbendingu um, að
Njörður hefði farizt skammt fyrir utan höfnina. Aldrei rak
meira úr bátnum, og síðar sagði mér Valdimar Pétursson,
183