Skagfirðingabók - 01.01.1987, Side 191
VIÐ FUGL OG FISK
sjávargnauðið braut þann fremsta og síðan hina smám saman.
Silungur var oft í lygnunni sunnan við öldubrjótinn, og hann
var tekinn þar í nót, sem og sunnan við bryggjuna.
A veturna fórum við oft á selaskytterí á Baldri, einkum á
útmánuðum. Iðulega fórum við niður með Sandi, að Vesturósn-
um, þegar skör hafði myndazt, en á henni lá selurinn gjarnan.
Ef við urðum hans varir, var einn settur í land til að láta sjá sig,
en hinir lágu utan við ósinn. Við Albert bróðir náðum einu
sinni þremur selum með þessu móti. Þó jöfnuðust engir á við þá
bræður Sighvat og Pálma Sighvats. Þeir voru einstaklega næmir
á að skynja hátterni sels og fugls, hvar þeir kæmu úr kafi, því þá
reið á að hafa snör handtök. Selurinn er mjög matarmikill, og
búdrýgindi að hverju dýri, enda fengu margir bita.
A vetrum höfðum við ævinlega byssu með í róður, ef selur
kæmi í færi eða svartfugl, fórum reyndar sérstaklega á
svartfuglaskyttirí. Þá var sótt út um Ingveldarstaðahólma og
yfir í Austurhallið. Svartfugl var einkum skotinn fyrri part
vetrar og fram yfir jól, og þótti ágætt að fá 30—40 fugla á dag.
Þegar svartfugl gaf sig ekki, en ella lítið nýmeti að fá, skutum
við stundum æðarfugl, pokönd eins og hann hét á sjómanna-
máli; það mun nær einungis hafa verið eftir áramót. Þetta gerðu
allir, en laumulega var farið með fuglinn. Menn lentu úti á Eyri,
fyrir utan öldubrjót, og brugðu sér í land með fuglinn í poka og
grófu í kambinn. Síðan var pokinn sóttur síðla kvölds eða að
næturlagi. Stundum urðu óvænt stefnumót á Eyrinni, og menn
urðu samferða heim, hvor með sinn poka — og fóru eftir
Nöfum. Auðvitað vissu allir, hvernig málum var háttað, þegar
skothvellir drundu í froststillum frammi á firði, og síðan komu
bátar að bryggju, en enginn fuglinn innanborðs. En svona
skyldi það vera, og þetta virtu allir.
A Drangeyjarfjöru
Vorin 1934—36 vorum við Baldursmenn á Drangeyjarfjöru
og veiddum fugl á fleka. Við vorum þar bræður Kristján, Jónas
189