Skagfirðingabók - 01.01.1987, Side 192
SKAGFIRÐINGABÓK
og stundum Sölvi og Maríus og höfðum samflot við Pálma
Sighvats á Leiftri og hans menn, þá Benedikt Schram, Svein
Magnússon í Ketu, Hjört Laxdal o.fl. Hver maður hafði sam-
kvæmt venju fjórar niðurstöður, báturinn tvær og fuglfarið eða
skektan eina, en báturinn sjálfur var of stirður til vitjana. Við
höfðum því minnst 15 niðurstöður, 45 fleka, og þótti gott að fá
10 fugla heim af niðurstöðu í vitjun, mest 20. Vitjað var um
tvisvar á sólarhring: A morgnana þegar sól kom á Kerlingu, eða
um áttaleytið, á kvöldin þegar sól kom á Háubrík, séð af
Fjörunni. Þá hefur klukkan verið um níu. Ekki man ég, hversu
margir fuglar komu í hlut, þegar mest var, en ekki var óalgengt,
að maðurinn fengi 200—300 fugla á viku bezta veiðitímann,
6., 7. og 8. viku sumars. Eftir það fór langvíu að fækka, en
smáfuglinum fjölgaði, lunda og álku. Langvían var uppistaðan
fram í 8. viku, en eftir það smáfugl. Menn fóru jafnvel sérstak-
lega fram í 12. — 14. viku sumars í smáfugl, þegar hefðbundinni
vertíð var lokið.
Það kom fyrir, að fugl slapp og skildi eftir fætur, einkum í
sveljuveðri. Það var aðallega álka, sem sneri af sér fætur, því
hún er afar viðbragðssnögg og barðist meira um en lundi og
langvía.
Við vorum gerðir út með nesti til vikunnar, og strekkt var við
að komast inn á Krók um hádegi á laugardögum til að eiga
skipti við bændur. Þeir komu með alls kyns feitmeti, smjör og
tólg, að ógleymdu hrosshárinu. Einnig áttu sér stað viðskipti
með beinhörðum peningum. Eg man eftir langvíunni lægstri á
25 aura, en á þessum árum minnir mig hún væri metin til jafns
við 35 aura. Fyrir sama verð fengust tveir smáfuglar. Líklega var
smjörkílóið látið móti 12 langvíum sem og kíló af hrosshári, og
var því mikið í húfi, að hárið væri gott og lítið gengi úr því.
Snöruhárið varð að ná úr krepptum hnefa um lokkinn og upp
fyrir olnboga. Styttra hár dugði ekki í fullgilda snöru, en var
unnið í flekabönd og trossur. Bezta hrosshárið var brúnt, svart
eða steingrátt. Það var grófast og stífast, stóð bezt á flekunum.
190