Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 194
SKAGFIRÐINGABÓK
snörur. Þær urðu að vera jafnt og vel snúnar, ekki harðsnúnar,
því að þá hlupu þær síður að fuglsfótum, en stóðu hins vegar
ágætlega í sveljum. Snúðlinar snörur voru fullt svo veiðnar, en
entust verr. Listin var að finna hinn rétta snúning, og hún var
ekki öllum lagin. „Nú er heldur hugur í Sveini gamla frá Ketu
að hugsa til eyjar. Hann er að snúa fyrir Pálma og fer að snúa
fyrir okkur uppsnúninginn, sem við erum að leysa upp í óða
önn“ segir í bréfi frá þessum tíma.
Að lokinni vertíð voru snörur dregnar úr flekum, sem komið
var fyrir í stæðum á tryggum stöðum í berginu, nema þeim sem
þörfnuðust viðgerðar. Okkar flekar voru á grastorfu um 15 m
uppi í bjargi, reyrðir niður á nagla, sem festir voru í bergið.
Talsvert var gert að því að snúa upp gömlu snörurnar, en
nokkuð gekk af. Slíkar snörur voru kallaðar uppsnúningar og
entust verr en nýtt hár. Lítill vandi var að koma snörum fyrir á
fleka, en jafnan voru þær þéttastar við brúnirnar.
Nauðsynlegt var að hafa nægan útveg, umframfleka til skipt-
anna. Flekarnir urðu smám saman þungir í sjónum og ekki
mjög veiðnir. Áður höfðu menn tvo á landi móti fjórum í sjó,
en við höfðum jafnmarga; á þurrum flekum velkjast snörurnar
minna.
Við stunduðum aldrei speldaveiði, enda var hún bönnuð í
okkar tíð. Hún var með þeim hætti, að fjalir þaktar snörum
voru lagðar á sillur og bjargfuglinn veiddur. Sá megingalli var á
þessari veiðiaðferð, að fuglinn lærði að varast speldin, og gat
tekið mörg ár að fá hann til að verpa á sumum sillunum á nýjan
leik. Varpfugl kom hins vegar nær aldrei á flekana. Ég man eftir
einum þau ár, sem ég var við eyna. Varpfuglinn er auðþekktur á
því, að hann plokkar sig inn í ham þar sem hann liggur á egginu
til að halda því heitu, slík er einangrunin í fiðrinu. „A fleka
veiddist nær einungis ungfugl, sennilega ókynþroska, og var
veiðiaðferðin því mjög hentug til að afla þessarar ljúffengu og
hollu fæðu og þróuð af forfeðrum okkar gegnum aldir“ segir
Hólmar Magnússon.
192