Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Page 6
6
Fötlunarfræði er fræðigrein sem fæst við hugtakið fötlun. Í
fötlunarfræðum sameinast margar
og ólíkar nálganir sem eiga það þó
sameiginlegt að hafna því að einblína á
einstaklinginn og skerðingar hans. Þess
í stað er athyglinni beint að áhrifum
efnahagslegra, menningarlegra og
ekki síst félagslegra þátta í að móta líf,
aðstæður og möguleika fatlaðs fólks.
Fræðin hafa þó ekki einvörðungu verið
notuð til að lýsa ástandi heldur beinlínis
til að koma á breytingum og bæta þannig
stöðu fatlaðs fólks.
Ísland er aðili að alþjóðasáttmálum og
hér gilda lög sem eiga að tryggja réttindi
fatlaðs fólks. Reglugerðir segja til um
hversu breið dyraop skulu vera og finna
má viðmiðanir um æskilegan halla á
römpum. Slíkt gefur þó afar takmarkaða
mynd af því hver dagleg reynsla fólks er
af því að búa í þessu samfélagi.
Markmiðið með meistararannsókn
minni var að kynnast og öðlast skilning
á reynslu fólks sem notar hjólastól,
meðal annars í þeim tilgangi að leggja til
úrbætur sem auðvelda hreyfihömluðu
fólki aðgang að samfélaginu og
þátttöku í því. Viðtöl voru tekin við
10 einstaklinga, sex konur og fjóra
karla, á aldrinum tuttugu til níutíu
ára, sem af ýmsum ástæðum nota
handknúna hjólastóla dags daglega.
Fjölskylduaðstæður viðmælenda voru
misjafnar, sumir bjuggu einir, aðrir voru
í sambúð. Sumir áttu börn, aðrir ekki. Að
auki voru gerðar þátttökuathuganir með
hluta viðmælenda en þátttökuathugun
er, líkt og viðtal, aðferð til þess að afla
rannsóknargagna. Þar var áhersla lögð á
að taka þátt í hversdagslegum athöfnum,
s.s. að fara í strætisvagn og í heimsókn
til ættingja. Nöfnum allra viðmælenda
var breytt.
En hvaða þættir er varða aðgengi eru
þeir sem skipta máli? Og hver er reynsla
fólks sem notar hjólastól af þátttöku í
samfélaginu?
Viðmót er hluti af aðgengi
Aðgengi er víðfeðmt hugtak og í huga
viðmælenda vísar það til fleiri þátta en
bara aðgengis að mannvirkjum. Eitt af
því sem þeir nefndu var óaðgengilegt
viðmót. Þetta viðmót lýsir sér í því að
ókunnugt fólk hefur fyrirfram mótaðar
hugmyndir um fólk sem notar hjólastól,
eins og þá að það sé ósjálfbjarga, geti
ekki svarað fyrir sig eða haft sjálfstæðar
skoðanir. Dæmi um þetta er þegar spurt
er yfir hausamótunum á fólki sem þó er
á staðnum:
„Hvernig hefur hann það?“
„Hvað vill hún?“
Sigþrúður nefndi sem dæmi að hún
hafi verið stödd í verslun þegar
afgreiðslukona kom til hennar, lagði
hendurnar á stólinn og spurði: „Ertu
ein hérna, vinan?“ Viðmót sem þetta
er aðgengishindrun þegar kemur að
þátttöku í samfélaginu.
Hver er dómbær?
Hugtakið aðgengi á líka við þegar
kemur að hjálpartækjum og það var
mörgum hugleikið. Ýmsar takmarkanir
eru á því hvaða búnaður fólki stendur
til boða af hálfu ríkisins en í umsókn
um hjálpartæki skal ávallt koma fram
mat heilbrigðisstarfsmanns á þörf hins
fatlaða umsækjanda fyrir tækið.
Viðmælendum sárnaði að þeim
sjálfum væri ekki treyst til að hafa vit
á því hverskonar hjálpartæki séu þeim
nauðsynleg, heldur geri kerfið ráð fyrir
því að ófatlað fagfólk viti það best. Því
miður eru notandinn og fagfólkið ekki
alltaf sammála um þörfina fyrir tiltekin
hjálpartæki. Halldóra þurfti t.d. að beita
lækninn sinn fortölum til að fá hann til
að skrifa upp á umsókn um bíl með lyftu
svo hún þyrfti ekki að reyna jafnmikið á
axlir og herðar við að toga sig inn í bíla.
Lækninum fannst hún nefnilega eiga
næga krafta eftir í höndunum.
Þó svo að heilbrigðisstarfsmaður
skrifi upp á umsókn um hjálpartæki
er það engin trygging fyrir því að hún
verði samþykkt. Þorsteinn tók dæmi
um þetta, en hann er í þeirri stöðu að
skerðingar sinnar vegna þarf hann að
hafa stuðning við hliðar og arma, ásamt
góðum stoppurum aftan á stólnum
sínum. Það er til þess að tryggja að hann
fari ekki alveg aftur fyrir sig ef stóllinn
sporðreisist. Hann sagðist hins vegar
geta gert stólinn sinn meðfærilegri með
því að hafa undir honum önnur dekk en
þau sem fylgdu sem staðalbúnaður frá
Steinunn Þóra Árnadóttir
lauk MA námi í
fötlunarfræðum frá
Háskóla Íslands árið 2013.
Lokaverkefni hennar fjallaði
um reynslu fólks sem notar
hjólastól af aðgengismálum
og samfélagsþátttöku. Þessi
grein byggir á niðurstöðum
þeirrar rannsóknar.
„Ertu ein
hérna, vinan?“
-reynsla fólks sem notar hjólastól