Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Blaðsíða 17

Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Blaðsíða 17
17 veikindum sínum, t.d. fann hún aldrei fyrir höfuðverk eða neinu slíku. Hún hafði alla tíð lifað heilsusamlega, aldrei reykt og hafði enga ættarsögu um heilablæðingar eða annað í þeim dúr. Þarna var hún, 44 ára, ung fjölskyldumanneskja með eiginmann og tvo drengi, sem aldrei hafði verið veik að ráði eða eins og hún segir sjálf frá: hafði alltaf verið stálhraust manneskja! Bergljót öðlaðist jafnt og þétt meiri líkamlegan styrk samhliða endur­ hæfingunni en vinstri hliðin var þó enn lömuð að hluta til. Bergljót gat samt gengið og strax um sumarið gat hún farið í klukkutíma langa göngutúra um hverfið sitt, skellt sér í sund af og til og ýmislegt annað. Því var það verulegt áfall fyrir alla þegar hún fór að fá mikla taugaverki í vinstri hluta líkamans um hálfu ári eftir blæðinguna eða um haustið 2009, verki sem eru enn til staðar og skerða mjög færni Bergljótar við daglegar athafnir og ekki síst lífsgæði hennar. Hún finnur fyrir verkjum hverja einustu mínútu, alltaf, og stundum fær hún heiftarleg verkjaköst sem geta varað í nokkra daga. Þá er eins og hún sé eitt flakandi sár og það sé verið að maka salti í sárið, sársaukinn er slíkur. Orsökin fyrir þessum verkjum er talin vera ör sem myndaðist í heilanum eftir blæðinguna og liggur á skynbrautum þar. Bergljótu finnst svo grátlegt að öll sú færni sem hún var búin að vinna upp í endurhæfingunni strax eftir blæðinguna glataðist þegar verkirnir komu, og þeir eru enn viðvarandi. Verkirnir eru það slæmir að stundum á hún erfitt með tala og jafnvel anda. Lítið sem ekkert slær á verkina hjá Bergljótu. Hún hefur tvisvar sinnum farið í heilaaðgerðir þar sem sett voru rafskaut í heilann og var vonast til að það myndi minnka verkina en ekkert gerðist. Nánast engin lyf hafa áhrif á verkina en þó eru tvö lyf sem Bergljót tekur og gagnast eitthvað, þótt takmarkað sé. Í febrúar sl. fór Bergljót á virta heila­ og taugastofnun í Bandaríkjunum þar sem hún var rannsökuð ítarlega og er vonandi að góðar niðurstöður fáist þannig að hægt verði að lina þjáningar hennar og hjálpa henni að öðlast betra líf. Á tímabilinu 2010­2011 hitti Bergljót ekki iðjuþjálfa en hún var töluvert inni á sjúkrahúsinu, m.a. út af verkjum. Þessi vetur reyndist Bergljótu erfiður, bæði líkamlega og andlega, og þarna fékk sársaukinn að stjórna lífi hennar og smám saman dró úr virkni hennar. Um haustið 2011 komst Bergljót aftur á móti inn á Reykjalund og segir hún það hafa verið eitt af því besta sem gerst hafi eftir að verkirnir byrjuðu. Þar kynntist hún m.a. iðjuþjálfa sem dreif hana áfram frá byrjun í alls konar virkni. Bergljót var t.d. allar helgar á Reykjalundi og iðjuþjálfinn sá til þess að hún hefði nóg fyrir stafni um helgar þegar enginn eiginleg þjálfun var í gangi. Þá tók Bergljót ýmiss konar handverk með sér upp á deild sem þær höfðu útfært í sameiningu varðandi hvernig best væri fyrir hana að vinna þannig að hún væri sem sjálfstæðust. Sem dæmi má nefna að Bergljót dundaði sér við skartgripagerð þar sem hún gerði nánast allt sjálf því hún vildi eiga sem mest í hlutunum. Hluti af ferlinu var að fara í skartgripabúð og velja hráefni. Þetta gerði hún allt í samstarfi við iðjuþjálfann sinn. Eitt af því magnaðasta sem Bergljót kynntist á Reykjalundi þarna um haustið 2011 var hugræn atferlismeðferð (HAM). Hún fór í einstaklingsmeðferð og lærði þar ýmsar aðferðir og leiðir til að takast á við daglegt líf. Þessar aðferðir eru í dag mikilvægur hluti af hennar lífsmynstri og hún notar þær daglega. Má þar nefna stundaskrá yfir vikuna sem hún fyllir út samviskusamlega hverja einustu viku ársins og reynir að fylgja í hvívetna. Bergljót lærði að láta verkina ekki stjórna sér með því að hætta við eitthvað vegna þeirra. Henni finnst HAM hafa hjálpað sér við að lifa með veikindunum. Fyrir tveimur árum kynntist Bergljót þjónustu sem Akureyrarbær býður upp á og heitir Ráðgjöfin heim. Þar eru tveir iðjuþjálfar starfandi og er markmið þjónustunnar að veita leiðbeiningar og faglega ráðgjöf til einstaklinga með fötlun af ýmsum toga er hafa þörf fyrir aðstoð og stuðning til að takast á við ýmis verkefni daglegs lífs. Bergljót nýtir sér þessa þjónustu nokkrum sinnum í viku en svo skemmtilega vill til að iðjuþjálfinn hennar þar er einmitt sá sami og kenndi henni að klæða sig í Kristnesi í upphafi veikindanna! Þær Eitt það magnaðasta sem Bergljót kynntist á Reykjalundi þarna um haustið 2011 var hugræn atferlismeðferð. stöllur brasa ýmislegt, t.d. fara þær tvisvar sinnum í viku í sund í Kristnesi, fara á bókasafnið, í búðir, á kaffihús og á matsölustaði. Eftir að þær uppgötvuðu handverksmiðstöðina Punktinn hafa þær farið mjög reglulega þangað. Þar vinnur Bergljót mest úr gleri þar sem hún getur unnið afar sjálfstætt í því. Bergljót er mjög ánægð með þessa þjónustu eða eins og hún segir: Iðjuþjálfinn vinnur markvisst að því að maður sé með! Unnið er að aukinni virkni og þátttöku í hinum ýmsu athöfnum og að maður sé sem mest sjálfstæður í daglega lífinu. Mér finnst iðjuþjálfun vera þörf stétt. Ég hef fengið að kynnast því í gegnum árin hversu breitt starfssvið þeirra er í raun. Það sem mér finnst einkenna iðjuþjálfa er að þeir hugsa í lausnum, ekki í vandamálum. Iðjuþjálfunin er ómetanlegur partur af þjónustunni sem ég fæ en sú þjónusta veitir mér tækifæri til þess að vera heima eins mikið og ég get, sem er mér svo mikilvægt. Síðustu ár hef ég farið í mánaðardvöl í Kristnesi á vorin og á Reykjalundi um haustið. Það finnst mér einnig ómetanlegt því þá fæ ég spark í rassinn og orku fyrir sumarið frá Kristnesi, og fyrir veturinn frá Reykjalundi. Ýmsum hjálpartækjum, bæði smáum og stórum, hefur Bergljót kynnst síðan hún veiktist og hafa þau yfirleitt reynst vel, misvel þó. Bergljót segist t.d. aldrei hafa komist upp á lag með að nota sokkaífæru en hins vegar sé hún himinlifandi yfir rafskutlunni sinni sem hún fékk fyrir tveimur árum og hefur aldeilis aukið sjálfstæði hennar, eða eins og hún segir sjálf: „Þetta er dásamlegt! Þegar ég get farið um á skutlunni er ég ekki háð öðrum.“ Hún fer m.a. í „göngutúra“ um nágrennið á skutlunni og í sjúkra- og líkamsrækt, sem einnig er í nágrenninu. Það var iðjuþjálfi sem kynnti hana fyrir rafskutlunni og vann í að Bergljót eignaðist eina slíka. Áður en hún fékk skutluna í hendur fékk hún ökuþjálfun á slíku tæki í Kristnesi þar sem iðjuþjálfinn hljóp með henni fram og til baka á meðan Bergljót æfði ökuleiknina. Margt fleira mætti nefna, en Bergljót segir að lokum: Margar stéttir í heilbrigðiskerfinu hafa unnið að því að ég verði sem mest sjálfbjarga með athafnir daglegs lífs og eiga iðjuþjálfar stærstan hlut þar. Ég hvet fólk til að kynna sér starf og hlutverk iðjuþjálfa. Skráð af Sigríði Guðmundsdóttur, iðjuþjálfa.

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.