Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Blaðsíða 26

Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Blaðsíða 26
26 í glænýjan skóla sem með tímanum á að vera aðgengilegur öllum en eins og gengur og gerist í nýjum byggingum þá klárast hlutirnir ekki alltaf á tilsettum tíma og er raunin sú að skólinn er enn ófullgerður. Þar er það sama upp á teningnum að allir leggjast á eitt til að allt gangi sem best. Það eru alltaf einhverjar aðgengis­ hindranir í daglegu lífi og þótt fólk sé alla jafna allt af vilja gert til að greiða götuna þá getur það líka verið þreytandi að vera alltaf upp á aðra kominn og láta „hafa svona mikið fyrir sér“. Sérstaklega getur þetta tekið á hjá Bjarneyju sem er að komast á unglingsár og þá snýst allt um að skera sig ekki út úr, vera ekki öðruvísi. Þá er það ekkert sérstaklega vinsælt að þurfa aðstoð kannski tveggja, jafnvel þriggja, til að taka þátt í einhverju sem jafnaldrar gera án þess að pæla í því. Sem dæmi þá er hún búin að taka þátt í nokkrum námskeiðum hjá leikfélagi undanfarin ár og um tíma var því haldið fast til streitu að námskeiðin væru í ákveðnu rými þar sem þurfti að fara upp þrjá stiga. Því var reddað að Bjarney kæmist upp en með mjög miklum tilfæringum og endaði það þannig að hún vildi bara hætta, henni fannst þetta of mikið mál. Þegar Bjarney vildi frekar hætta en halda þessu áfram var ákvörðun tekin um að færa námskeiðið á jarðhæðina þar sem aðstæður voru töluvert slakari út frá leiklistarlegu sjónarmiði en Bjarney komst auðveldlega að. Eftir þetta námskeið hætti hún alveg í leiklistinni. Aðgengi sem snýr að bænum eða ríkinu er eitt en það er, eins og áður sagði, oft annað uppi á teningnum þegar kemur að aðgengi á einkareknum stöðum og einkaheimilum. Í dag erum við í þeirri stöðu að aðgengi til ættingja og vina er ekki alltaf eins gott og við viljum og gerir okkur erfitt fyrir að komast í heimsókn til fólks sem okkur er kært. En aftur eru undantekningalaust allir tilbúnir að hjálpa til að gera okkur kleift að kíkja í kaffi. Við fjölskyldan höfum átt ófá samtöl við aðila í einkageiranum í sambandi við aðgengi að ákveðnum stöðum. Oftast hafa samtölin byrjað þegar við stöndum frammi fyrir því að komast ekki inn á staðinn. Þótt það séu tveir hjólastólanotendur í fjölskyldunni eigum við það stundum til að gleyma að velta fyrir okkur stöðu aðgengismála á þeim stöðum sem við ætlum á og rjúkum bara af stað, nú eða það kemur upp skyndihugdetta að fara eitthvert. Þegar á staðinn er komið hefur starfsfólk lýst því yfir að þetta gangi nú ekki, auðvitað þyrfti að laga þetta og tala um að gera úrbætur. Jafnvel höfum við bent viðkomandi á hvað mætti fara betur og hvernig væri hægt að bæta úr. Því miður hafa þessi samtöl að ég held bara einu sinni eða tvisvar sinnum skilað sér í bættu aðgengi. Rauði þráðurinn er samt sem áður sá að við sem þurfum að hafa aðgengið í góðu lagi getum ekki gengið að því sem vísu að komast allt sem við þurfum að komast. Því þarf að undirbúa alla hluti vel og vera alltaf skrefi á undan, hvort sem málið snýst um að komast í brúðkaupsveislu, sumarbústað eða skólaferðalag. Sum mál þarf að skoða með allt að árs fyrirvara til að vera örugg um að allt gangi vel fyrir sig. Svo hefur líka tilfinningalegi þátturinn áhrif. Það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera alltaf aðilinn sem „allt“ stoppar á í skipulagningunni og jafnvel gerir það að verkum að ekki sé hægt að gera hluti eins og meirihlutinn vill gera þar sem það gengur ekki upp aðgengislega. Flækjustigið verður óneitanlega hærra þegar gera þarf ráð fyrir tveimur hjólastólum ofan á allt annað sem verið er að skipuleggja. Svo er nú gaman að bæta því við að við fjölskyldan höfum verið svo lánsöm að geta ferðast tvisvar sinnum til Flórída í Bandaríkjunum. Þar er löggjöfin um aðgengismál svo sterk og föst í sessi að í tæpar þrjár vikur gátum við ferðast frá Tampa til Daytona Beach án þess að hafa nokkrar áhyggjur af því að komast ekki inn á þá staði sem okkur datt í hug að fara á. Mikil ósköp hvað það var frelsandi og jafnvel skrítin tilfinning. Á undaförnum misserum hefur mikið verið rætt um ný mannvirkjalög og byggingareglugerð. Þar er miðað við að hanna og byggja öll mannvirki eftir viðmiðum Algildrar hönnunar. Markmiðið er að gera samfélagið aðgengilegt öllum. Þeir sem standa að hönnun og byggingu mannvirkja hafa kvartað sáran yfir þessum breytingum og hefur farið mikil vinna hjá baráttusamtökum fatlaðra í að standa fast á þessari nýju hugmyndafræði. Það er okkar mat að sé horft fram á veginn sé þetta afar hagkvæmt fyrir alla íbúa þessa lands. Sem dæmi má nefna að aldraðir munu geta búið lengur heima þrátt fyrir hreyfiskerðingu, en meðalaldur þjóðarinnar mun fara ört hækkandi á næstu árum. Hreyfihamlaðir einstaklingar munu komast um allt samfélagið án hindrana og þ. á m. heimsótt vini sína þar sem allt íbúðarhúsnæði á að vera aðgengilegt samkvæmt þessum nýju lögum. Einnig má nefna fólk með barnavagna og alla þá sem þurfa að komast um óhindrað. Það er nóg til af óaðgengilegu húsnæði þannig að það er engin hætta á að það verði skortur á því! Annars lítum við fjölskyldan björtum augum á framtíðina í þessum efnum og vonumst til að sjá fram á áframhaldandi framfarir í aðgengismálum í náinni framtíð öllum þjóðfélagsþegnum til heilla. Fjölskyldan í fríi á Flórída Jón á vörulyftu

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.