Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Qupperneq 29

Iðjuþjálfinn - 01.06.2014, Qupperneq 29
29 Útrás er tilraunaverkefni á veg­um Hlutverkaseturs sem hófst með samstarfi iðjuþjálfanna Sylviane Pétursson og Elínar Ebbu Ásmundsdóttur. Markmiðið er að auka atvinnuþátttöku fólks með geðraskanir og fræða atvinnulífið um þarfir einstaklinga með skerta starfsgetu. Einnig að vinna gegn fordómum og mismunun og vekja áhuga háskólasamfélagsins á mikilvægi málaflokksins í tengslum við félagsauð og hagsæld. Til að fræðast um verkefnið Útrás mæltum við okkur mót við þær Elínu Ebbu Ásmundsdóttur og Sylviane Pétursson. Hlutverkasetur er staðsett í Borgartúni 1, á annarri hæð. Þegar við komum var mikill erill, mismunandi námskeið voru í gangi, fólk að spjalla í hverju horni, sumir með kaffibolla og aðrir vafrandi um netheima. Við höfðum lent mitt í orkuflæði hressleika og sköpunar. Þær stöllur buðu okkur upp á kaffi og leiddu okkur inn í eitt herbergið til að fá næði við að rekja úr þeim garnirnar. Í upphafi viðtalsins tengdu þær mikilvægi Útrásar við nýja rannsókn sem Félagsvísindastofnun HÍ og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum unnu að beiðni ÖBÍ. Þessar niðurstöður sýndu m.a. að um 40% einstaklinga með geðsjúkdóma hafa ekkert fyrir stafni á daginn og 60% þeirra sem hafa stoðkerfisvandamál. Við spurðum þær hvernig svona verkefni verði til. Þær hlógu, horfðu hvor á aðra og svöruðu: „Verkefni eins og Útrás á sér langan aðdraganda, þar sem margir koma að og oft er það tilviljun hvort góð hugmynd verði að veruleika eða ekki.“ Þær sögðust eiga það sameiginlegt að gefast ekki upp, væru þrjóskar og fylgdu hlutunum eftir. Samstarf þeirra hófst 1981 á geðdeild Landspítalans. Þær hafa því unnið saman í rúma þrjá áratugi. Sylviane sá fljótt hvað störf eru mikilvæg og batahvetjandi fyrir þá sem kljást við geðsjúkdóma. Hún varð því fljótt atvinnumiðuð sem iðjuþjálfi. Það gekk hins vegar erfiðlega fyrir geðsjúka að hasla sér völl á vinnumarkaðinum, m.a. vegna fordóma, þekkingarleysis á þörfum þeirra og engrar eftirfylgdar. Fjölritun iðjuþjálfunar geðdeildar Landspítalans varð fljótlega mikilvægur hlekkur í starfsendurhæfingunni. Þrátt fyrir að skjólstæðingar stæðu sig vel í vinnu í Fjölritun, náði það ekki út fyrir þann vinnustað. Það var ekki nóg að kunna vel til verka, það voru aðrir þættir sem hindruðu fólk í atvinnuþátttöku. Þegar taka á fyrstu skrefin út í lífið eftir langa innlögn, eða margra ára fjarveru frá vinnumarkaði, þarf oftar en ekki góðan stuðning frá fagfólki eða skyldmennum. Sylviane fór því að veita skjólstæðingum stuðning heima eða í vinnu þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir slíku í starfslýsingu hennar. Í gegnum árin hafa Sylviane og Ebba tekið þátt í alls kyns starfsþjálfunarverkefnum í samstarfi við iðjuþjálfa sem hafa átt samleið með þeim. Þjálfunin var þó öll innan sjúkrahússveggjanna. Það var sá rammi sem iðjuþjálfar urðu að vinna eftir allt fram á þessa öld. Engar stöður voru í boði fyrir iðjuþjálfa á vinnumarkaðinum við að aðstoða fólk á vettvangi. Eina ráðið var því að skapa umhverfi innan iðjuþjálfunar sem líktist sem mest vinnustað. Árið 2005 var Hlutverkasetur stofnað og skapaðist þá annar farvegur. Eitt af markmiðum Hlutverkaseturs var að nýta reynslu og þekkingu geðsjúkra til verðmætasköpunar á vinnumarkaðinum. Það að hafa kljáðst við geðsjúkdóm og náð tökum á lífinu, þrátt fyrir einkenni, skapaði verðmæta reynslu á sama hátt og menntun og almenn starfsreynsla. Að mati Ebbu ættu geðdeildir t.d. að vera í fararbroddi í að ráða starfsfólk með þá reynslu á allar deildir á öllum vöktum. Sjúklingar eða aðstandendur þeirra gætu leitað til slíkra starfskrafta þegar þeir vildu fá stuðning og/eða heyra frá fólki sem hefði verið í svipuðum sporum. Að undirbúa jarðveginn fyrir atvinnulífið Viðtal við Elínu Ebbu Ásmundardóttur og Sylviane Pétursson

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.