Skólavarðan - 01.09.2005, Qupperneq 10
10
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2005
Til skrifstofu KÍ berast ótal fyrirspurnir um
allt milli himins og jarðar er varðar kennara.
Þeir fara eins og aðrir í fæðingarorlof
og margir sem hringja hingað til mín
í Kennarahúsið eru með spurningar
varðandi fæðingarorlof. Sumir hringja
á síðustu stundu þegar skilafrestur til að
sækja um fæðingarorlof er að renna út,
en aðrir hringja með góðum fyrirvara og
velta mikið fyrir sér hvernig best sé að haga
fæðingarorlofinu, hvort þeir eigi að dreifa
því, skipta eða taka fullt fæðingarorlof. Svo
eru jafnvel þeir forsjálustu sem skipuleggja
fæðingarorlofið tólf mánuðum áður en
það hefst m.t.t. hvernig sumarleyfið komi
best út í fæðingarorlofinu. Venjulega er
sveigjanleiki á tilhögun fæðingarorlofs.
Hægt er að taka það í einu lagi, skipta
niður á fleiri tímabil eða vera í minnkuðu
starfshlutfalli samhliða fæðingarorlofi.
Náist ekki samkomulag um að koma til
móts við óskir starfsmanns á hann jafnan
rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
Að mörgu þarf að huga áður en farið
er í fæðingarorlof, til dæmis þarf að fylla
út tvenns konar eyðublöð, annars vegar
eyðublaðið „Tilkynning um fæðingar-
orlof” þar sem kennarinn setur fram
óskir sínar um tilhögun fæðingarorlofsins
og hins vegar „Umsókn um greiðslur
úr Fæðingarorlofssjóði” sem sent er til
TR (Tryggingastofnunar ríkisins). Þessi
eyðublöð og aðrar upplýsingar um
fæðingarorlof má nálgast á vef KÍ www.
ki.is Þar er einnig hægt að finna “Spurt &
svarað” sem eru algengustu spurningar og
svör sem safnað hefur verið saman á einn
stað, til dæmis varðandi fæðingarorlofið.
Samkvæmt lögum um fæðingarorlof
á móðir rétt á þriggja mánaða fæðingar-
orlofi og faðir einnig. Sá réttur er ekki
framseljanlegur á milli foreldra þannig að
kjósi annað þeirra að nýta ekki sjálft sinn
rétt fellur hann niður. Þá eiga foreldrarnir
þrjá mánuði til viðbótar sameiginlega sem
þeir geta ráðið hvernig þeir nýta.
Margir vilja vita hvað þeir komi til
með að hafa í tekjur í fæðingarorlofinu.
Þá er hægt að fara inn á vef TR, þar er
reikniforrit sem heitir „Reiknhildur” og
getur fólk þar áætlað greiðslurnar sem
það kemur til með að fá.
KÍ er aðili að FOS (Fjölskyldu- og
styrktarsjóði) ásamt BHM, BSRB og FÍH.
FOS sér um að greiða konum mismun á
80% af heildarlaunum og þeim launum
er þær hefðu fengið samkvæmt fyrri
reglugerð um barnsburðarleyfi, það á líka
við um þær sem dreifa á tólf mánuði. Þá
er litið til fastra launa í sex mánuði og
yfirvinnu fyrstu þrjá mánuðina (m.v. sex
mánaða fæðingarorlof, annars er þessu
öllu dreift á tólf mánuði, 50% greiðslur).
Skilyrði fyrir viðbótargreiðslum FOS er að
ráðning sé í gildi.
Það eru ekki allir sem vita að í gildi
er samkomulag varðandi fæðingarorlof
grunnskóla-, framhaldsskóla- og tónlistar-
skólakennara og sumarorlof þeirra. Sam-
komulagið er þannig að ef kennari fer í
fæðingarorlof sem lendir á sumartímanum
þá telja júní, júlí og ágúst í raun sem einn
mánuður og kennari sem ætlar sér að
taka sex mánaða fæðingarorlof fær því
átta mánaða fullt fæðingarorlof (komi
hann aftur til starfa), TR greiðir fyrstu
sex mánuðina og launagreiðandi síðustu
tvo mánuðina. Þetta á þó ekki við ef
fæðingarorlofi er dreift á lengri tíma, til
dæmis tólf mánuði, þá velur viðkomandi
að fá greiðslur frá TR í tólf mánuði og
á ekki viðbótardaga vegna sumarsins
heldur fær greitt orlof á fæðingarorlofið.
Þetta á ekki við um leikskólakennara, í
þeirra tilfelli bætist einungis sumarorlof
viðkomandi við, þ.e. 24, 27 eða 30 dagar
ef fæðingarorlof fellur á þann tíma sem
viðkomandi hefði annars tekið orlof.
Mikilvægt er að fólk merki við á
eyðublaðinu „Umsókn um greiðslur
úr Fæðingarorlofssjóði” að það vilji
greiða til KÍ í fæðingarorlofinu, annars
tapar starfsmaður öllum félagslegum
réttindum þ.m.t. rétti í Vísindasjóði/
Endurmenntunarsjóði, Orlofssjóði og
Sjúkrasjóði. Þetta atriði gleymist oft og
kemur ekki í ljós fyrr en viðkomandi
kennari ætlar að nýta sér þessi réttindi
sem aðild að KÍ veitir.
Ef þið hafið einhverjar spurningar
varðandi fæðingarorlof eða annað þá er
hægt að hringja hingað í Kennarahúsið í
síma 595 1111 eða senda mér tölvupóst á
netfangið: ingibjorg@ki.is
Ingibjörg Úlfarsdóttir
KJARAMÁL
Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi
KÍ skrifar um: Fæðingarorlof
Ingibjörg hjá ki.is Ljósmynd: Keg