Skólavarðan - 01.09.2005, Qupperneq 25

Skólavarðan - 01.09.2005, Qupperneq 25
25 SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 5. ÁRG. 2005 borða og fá aðstoð við heimanám og tómstundir. Engar skólamáltíðir þar. Við veltum því fyrir okkur hvernig þetta samræmdist jafnréttisbaráttu. Ætli feður séu heima til jafns við mæður í Þýskalandi? Hins vegar frá Rúmeníu: Þar viðgangast umgengnishættir sem hafa verið lagðir niður hér en voru áður við lýði. Nemendur rísa á fætur þegar kennari eða gestir ganga í stofu. Valdboð skólastjórans er meira en hér tíðkast og mikið er um agareglur sem allar eru settar á blað. Frekar voru fundarmenn framlágir þegar komið var að 117. reglu um aga og umgengi í skólanum þar sem fundurinn var haldinn! Hins vegar eru bæði skólastjóri og starfsfólk stolt af verkum sínum og í öllum skólum héngu uppi viðurkenningarskjöl fyrir námskeið og þátttöku kennara í alþjóðlegum verk- efnum og endurmenntun, innan um myndir og styttur af heilögum Georg og öðrum trúartáknum. Unglingar með Íslandsdellu Í Rúmeníu sóttum við heim sex skóla, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, í hafnarborginni Braila og að auki háskóla í nágrannabænum Galati. Fyrst fórum við þó til Búkarest. Þessi fornfræga borg má muna sinn fífil fegri, viðhaldi húsa og hreinlæti í miðborginni er víða ábótavant. Mikið bar á auglýsingum vegna væntanlegra forsetakosninga í landinu. Þar virtist ekkert til sparað. Frá höfuðborginni lögðum við lykkju á leið okkar til að skoða Karpatafjöllin og konungskastala. Gömul fellingafjöllin eru tilkomumikil þar sem þau tróna yfir víðfemu sléttlendinu sem er heldur berangurslegt að vetrarlagi. Kastalar, gullslegnir kirkju- og klausturturnar sindruðu í frostinu. Hestvagnar á tveggja akreina þjóðveginum voru hættulegir í umferðinni, sérstaklega eftir að myrkur skall á. Komið var að kvöldi dags til Braila og farið í skólaheimsóknir næsta dag. Gestrisni Rúmena er með eindæmum og móttökur höfðinglegar. En aðbúnaður var æði misjafn og fátæklegastur í háskólanum, þar sem gamlir, einfaldir trébekkir og krítartafla voru eini búnaðurinn í þeim kennslustofum sem opnar voru. Einn skólanna bar af og þar virtist allt til alls. Var okkur tjáð undir rós að skólastjórinn hefði betri sambönd en aðrir. Einn skólanna var einkarekinn Waldorf-skóli sem nýtur ríkisframlags rétt eins og einkaskólar hér á landi en er að öðru leyti rekinn fyrir skólagjöld og samskot. Alls staðar var skólahald með miklum sóma. Agi er mikill og unglingarnir virðast komnir nokkuð lengra í námi, t.d. í stærðfræði, en íslenskir jafnaldrar. Gaman var að hitta unglinga sem voru með dellu fyrir Íslandi og vissu ótrúlegustu hluti um landið og eldfjöllin okkar. Hvarvetna voru íkonar og trúarlegar myndir á veggjum í þeim skólum sem við skoðuðum, auk þjóð- skáldsins Stefans Eminescus og fyrirmenna fortíðar sem jafnframt gefa skólunum heiti. Einn skólanna er nefndur eftir Vlad Tepes sem er betur þekktur undir nafninu Drakúla greifi. Auk skólaheimsókna fundaði hópurinn nokkrum sinnum í framhaldsskóla með tækni- og verknámsbrautum sem reistur var upp úr 1960. Á þeim tíma voru uppi stór áform um að byggja þekkingarþorp í Braila og átti skólinn að vera hluti af því. Ekkert varð úr því annað en þessi skóli sem var á sínum tíma hinn glæsilegasti en nú hamlar fjárskortur viðhaldi. Á fyrsta fundi okkar varð rafmagnslaust, gestgjöfum til lítillar ánægju. Postulínsklukka og soltnir hundar Braila er fögur borg sem stendur á bökkum Dónár. Vatnsrennibrautir og einmanalegar hringekjur gefa fyrirheit um heit og fjörug sumur en hrollkalt var í nóvember þegar við sigldum þar um og fátt um mannaferðir. Þó voru á ferð einstaka fiskibátar og lystisnekkja fyrrum einráðsins Ceausescu er jafnglæst hvort heldur er á sumri eða vetri – minnismerki um spillingu valdsins. Búseta á þessum slóðum er mörgþúsund ára en borgin sjálf er rúmlega 600 ára. Víða eru byggingar frá blómaskeiði hennar á árunum 1836-1894 þegar hún var miðstöð verslunar og flutninga, síðasta stórskipahöfnin við Dóná. Auk þess setja stórhýsi frá uppbyggingarárum kommúnismans svip á borgina. Einkennismerki Braila er blá postulínsklukka sem stendur skammt frá Mariu Filotti leikhúsinu, því eina í borginni. Það virkaði táknrænt fyrir breytta tíma að klukkan var stopp. Glæsilegar verslanir eru víða í göngugötum en inni á milli eru auð hús að hruni komin og hundafjöld er frekar til leiðinda. Okkur var sagt að fyrir fáum árum hefði staðið til að hreinsa götur borga í Rúmeníu af hundafárinu en þá hefði leik- og dýraverndarkonan Brigit Bardot hrundið af stað herferð til verndar götuhundunum. Nú eru þeir út um allt, soltnir og étandi úr ruslatunnum. Verkefnislok Síðasti fundur hópsins í verkefninu um skólastjórnun var haldinn í smábænum Nagold í Þýskalandi í mars sl. Í lokin hitti hópurinn að máli þingmanninn Wilhelm Schuth sem situr á Evrópuþinginu. Honum var sagt frá verkefninu og færður geisladiskur og bæklingur um verkefnið sem áður er getið. Schuth færði þær fréttir að daginn áður hefði verið fyrsta atkvæðagreiðsla vegna inngöngu Rúmena í Evrópusambandið og þeim mjög í hag. Þetta gladdi alla í hópnum fyrir hönd „Rúmenana okkar“, þeirra Daniels Neicu og Eugeniu Dan sem viknuðu við fréttirnar, en Rúmenar binda miklar vonir við aðild að Evrópusambandinu sem fyrirhuguð er árið 2007. Þátttakan í þessu Comeniusar-verkefni hefur verið samfellt lærdómsferli. Og víst er að ferðin til Rúmeníu mun seint líða úr okkur Íslendingum úr minni, rétt eins og ferðin hingað til lands mun lifa í minni hinna þátttakendanna. Ásdís Ingólfsdóttir Margir skólar í Rúmeníu eru virkir í Evrópusamstarfi enda binda Rúmenar miklar vonir aðild að ES sem þeir fá 2007. Þátttakendur í Comeniusarverkefninu um skólastjórnun. Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík er þriðja frá vinstri og greinarhöfundur er fyrir miðri mynd. COMENIUSARVERKEFNI

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.