Skólavarðan - 01.04.2007, Blaðsíða 17
17
SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 7. ÁRG. 2007
einstökum grunn- og framhaldsskólum.
Í könnun nefndarinnar á námi á tveimur
skólastigum samtímis kom í ljós að
algengt er að viðkomandi sveitarfélag
greiði innritunargjaldið fyrir þessa
nemendur en þeir greiði síðan sjálfir fyrir
kennslugögnin. Einnig er nauðsynlegt
að setja tiltekin viðmið um hvenær
nemendur hafi lokið tiltekinni náms-
grein í grunnskóla áður en þeir hefja
nám í áföngum á framhaldsskólastigi.
Auðvitað á þetta að vera þannig að
framhaldsskólanám sé nemendum alveg
að kostnaðarlausu á meðan þeir eru enn
á ábyrgð grunnskólans.
Eftir að grunnskóla lýkur
Samkvæmt framhaldsskólalögum eiga
þeir, sem lokið hafa grunnskólaprófi
eða jafngildu námi, kost á því að hefja
nám í framhaldsskóla. Inntökuskilyrði
miðast við námsárangur á samræmdum
lokaprófum og við skólaeinkunnir við lok
grunnskóla eftir því sem við á. Hlutfall
útskriftarnema úr grunnskóla sem innritast
í framhaldsskóla hefur hækkað og var um
96% haustið 2006 og hefur verið lögð
áhersla á að útvega öllum í þessum hópi
skólavist í framhaldsskóla.
Syrtir í álinn
En í raun og veru er staðan þannig að
nemendur eiga aðeins kost á að hefja
nám í framhaldsskóla en ekki rétt á að
komast í skóla í hverfinu sínu, skólann sem
þeir vilja fara í, eða rétt á að fá nám við
hæfi. Fyrra atriðið á sérstaklega við um
höfuðborgarsvæðið en þar er undir hælinn
lagt hvort nemendur komast í skólann
sem þeir kjósa sér. Biðraðir hrannast upp
við tiltekna skóla hvert ár og mun færri
komast þar að en vilja.
Ástæður þessa eru meðal annars
húsnæðisþrengsli sem leiða til þess að
„vinsælustu“ skólarnir skrúfa inntöku-
viðmiðin upp. Því má segja að tilteknir
skólar velji sér miklu frekar nemendur
en að nemendur velji sér skóla. Margir
nemendur á höfuðborgarsvæðinu fara
því í skóla sem er langt frá heimili þeirra
og ekki þann sem þeir settu í fyrsta sæti.
Vinirnir eru ef til vill í öðrum skóla, þeir
þekkja ekki til skólans sem þeir lenda
í og hefja kannski framhaldsskólanám
sitt með mikil vonbrigði í farteskinu.
Þar sem skólinn í hverfinu þeirra eða
aðrir skólar höfnuðu þeim verður þetta
svo eins og enn ein áminningin um fyrri
ósigra á skólagöngunni. Á landsbyggðinni
er staðan önnur og skólarnir þar taka
miklu frekar við þeim breiða hópi sem
sækir um. Fyrirkomulagið á inntöku inn
í framhaldsskóla er okkur til skammar.
Stórir hópar ungmenna og heimili þeirra
eru í uppnámi á hverju einasta vori.
Varðandi nemendur með fötlun þá
á samkvæmt framhaldsskólalögum að
veita þeim stuðning í námi og er fram-
haldsskólum heimilt að starfrækja sérstakar
deildir fyrir þá. Staða þessa hóps er slæm
og fáir skólar bjóða upp á þetta sérstaka
nám. Loks eru það eldri nemendur sem
hverfa frá námi af einhverjum sökum og
vilja taka upp þráðinn að nýju en sitja ekki
við sama borð og nýnemahópurinn. Það
gera ekki heldur fullorðnir nemendur sem
vilja stunda nám til að styrkja stöðu sína á
vinnumarkaði. Ekki er á vísan að róa fyrir
þessa hópa um örugga skólavist. Ekki er
vitað hversu margir eldri nemendur stóðu
úti í kuldanum vegna þessa haustið 2004
en haustið 2005 er talið að 119 nemendur
hafi ekki fengið inni í neinum skóla.
Flestir þeirra voru að sækja um skólavist
eftir hlé frá námi en aðrir sóttu um að
skipta um skóla. Þessi hópur samsvarar
nemendafjölda í einum framhaldsskóla af
minnstu gerðinni.
Meira brotthvarf en
annars staðar í Evrópu
Vandi framhaldsskólans felst að stærstum
hluta í því að hann getur ekki sinnt
þeim breiða hópi sem þar sækir um.
Fjárskortur og húsnæðisvandi hefur nær
undantekningarlaust hindrað framhalds-
skólana í að koma til móts við mismunandi
námsþarfir nemenda með fjölbreytilegu
og sveigjanlegu námsframboði. Sveigjan-
leikinn sem hefur verið til staðar í formi
áfangakerfisins í aldarfjórðung er mjög
vannýtt auðlind. Við sjáum síðan afleið-
ingarnar: Mun meira brotthvarf úr námi
en í öðrum Evrópulöndum. Samkvæmt
upplýsingum Hagstofu hurfu um 10%
sautján ára árgangsins úr skóla árið 2005
strax á fyrsta námsári.
Ónógur undirbúningur
og lítil ráðgjöf
Talsvert stór hluti hvers árgangs sem hefur
nám í framhaldsskóla eftir 10. bekk hefur
heldur ekki nægan undirbúning og er vísað
á almenna námsbraut sem býður yfirleitt
upp á endurtekningu á því námi sem þessi
hópur réð ekki við í grunnskólanum. Einnig
má nefna skort á ráðgjöf við nemendur um
námið og persónuleg málefni og litla hefð
fyrir samstarfi heimila ólögráða nemenda
og framhaldsskóla. Kennarar ræða mjög
mikið um lítið heimanám nemenda,
slakan námsárangur og vinnu með námi.
Sú staðreynd að nám í framhaldsskóla er
dýrt hefur eflaust áhrif hér.
Í þessu sambandi má líka nefna mikla
gjaldtöku og misjöfn gæði fjarnáms auk
þess sem brotalamir eru á vinnuumhverfi
og starfsaðstæðum kennara. Það er orðið
löngu tímabært að taka öll þessi atriði
föstum tökum. Ástand sem líkja má við
villta vestrið ríkir í þessum efnum. Í síðasta
tölublaði Skólavörðunnar var grein eftir
framhaldsskólakennara á Akranesi um
gæðamál í fjarnámi sem við hvetjum alla
til að kynna sér.
Það er því mjög áleitin spurning hve
sá hópur er í raun stór sem sækir ekki um
skólavist því hann finnur sér ekki nám
við hæfi eða vegna fjárhagslegrar stöðu.
Tölur Hagstofu um skólasókn 16 – 18
ára ungmenna haustið 2004 sýna mjög
mismunandi skólasókn eftir landsvæðum
og kynjum. Á það hefur líka verið margoft
bent að hærra hlutfall fólks á íslenskum
ÞETTA ÞARF AÐ GERA NÚNA:
Koma tillögunum alla leið. Það krefst
vandaðrar vinnu og til hennar þarf
tíma. Rekið er á eftir laganefndum að
ljúka störfum og þeim ætlað að skila
af sér áður en þær hafa fengið gögn í
hendur frá hinum nefndunum. Þessu
verður að linna.
ÍSLENSK MENNTUN, MENNTASTEFNA OG FRAMKVÆMD – 1. GREIN
Það vantar mikið upp á að hægt sé að segja að hérlendis ríki
jafnrétti til náms í framhaldsskólum.
Mjög stór hópur nemenda ferðast langar leiðir til að komast í
skólann og oftar en ekki er hann alls ekki sá skóli sem þeir vildu
fara í. Þetta er útilokun sem er innbyggð í kerfið og nauðsynlegt að
útrýma sem allra fyrst.