Skólavarðan - 01.06.2008, Qupperneq 7
KjARAMÁL
7
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008
Að mörgu er að huga þegar kennari ákveður
að hefja töku eftirlauna, margar spurningar
vakna til dæmis um eftirlaunin, starfslokin,
hvernig félagsaðildin breytist, hvort hægt sé
að nýta þjónustu Orlofssjóðs og jafnvel að
halda áfram kennslu eftir að taka eftirlauna
hefst. Ég ætla að fjalla um nokkur atriði
sem kennarar á leið á lífeyri velta fyrir sér
þegar kemur að þessum tímamótum.
Hvenær getur kennari hafið töku
eftirlauna?
Hafa ber í huga að innan KÍ eru margir hópar
sem greiða í mismunandi lífeyrissjóði, en
flestir greiða í LSR (Lífeyrissjóð starfsmanna
ríkisins) og LSS (Lífeyrissjóð starfsmanna
sveitarfélaga). Upplýsingar um stöðu við-
komandi hjá lífeyrisjóði fær sjóðfélagi hjá
sínum sjóði, en hjá LSR er einnig hægt að
sækja um aðgang að sjóðfélagavef sjóðsins
og nálgast þar upplýsingar um stöðu sína.
Það er mismunandi eftir lífeyrissjóðum
og deildum hvenær kennarar geta hafið
töku eftirlauna. Sjóðfélagar B-deildar LSR
(Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins) geta
hafið töku lífeyris 60 ára samkvæmt 95
ára reglunni en 65 ára samkvæmt almennu
reglunni. Sjóðfélagar í A-deild geta hins
vegar hafið töku lífeyris hvenær sem er á
aldrinum 60 til 70 ára og þurfa ekki að vera
hættir störfum þegar taka lífeyris hefst, en
hefji þeir töku eftirlauna fyrir 65 ára kemur
til skerðingar en þeir bæta við sig ef töku
lífeyris er frestað.
Upphaf lífeyristöku sjóðfélaga A-deildar
LSS (Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga)
miðast við 65 ára aldur. Þó getur sjóðfélagi
hafið töku lífeyris allt frá 60 ára aldri en
þá skerðist réttur viðkomandi fyrir hvern
mánuð sem hann byrjar fyrir 65 ára aldur
og ef sjóðfélaginn frestar töku lífeyris bætir
hann þar með lífeyrisrétt sinn fyrir hvern
mánuð sem hann frestar því. Í V-deild LSS
(Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga) er
miðað við að taka lífeyris hefjist við 65 ára
aldur en eins og í A-deild LSS þá skerðist
lífeyrisrétturinn ef taka lífeyris hefst fyrir 65
ára en eykst ef töku lífeyris er frestað.
Ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins
Allir sem eru orðnir 67 ára eiga rétt á elli-
lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og verður
hver og einn að sækja um hann sérstaklega
til stofnunarinnar þar sem það gerist ekki
sjálfkrafa. Þó að starfsmaður haldi áfram
að vinna eftir að 67 ára aldri er náð á hann
samt rétt á ellilífeyri en þó getur komið til
skerðingar fari tekjur hans yfir ákveðin
mörk. Þess ber þó að geta að atvinnutekjur
þeirra sem náð hafa 70 ára aldri teljast ekki
til tekna við ákvörðun ellilífeyris og hafa því
ekki áhrif á rétt til ellilífeyris.
Upphaf lífeyristöku
Allir þurfa að sækja sérstaklega um að hefja
töku eftirlauna hjá sínum lífeyrissjóði og
vinnuveitandi fyllir einnig út tilkynningu um
starfslok starfsmannsins. Umsóknareyðublöð
má nálgast á vef lífeyrissjóðanna eða biðja
um að fá þau send í pósti. Ef sjóðfélagi hefur
greitt í nokkra lífeyrissjóði er sótt um lífeyri
til þess lífeyrissjóðs sem greitt var í síðast,
eða þar sem sjóðfélagi á mest réttindi. Sá
lífeyrissjóður sækir þá um til annarra sjóða
eða veitir nánari upplýsingar um hvert skal
snúa sér, ef við á. Greiddur er skattur af
lífeyrisgreiðslum eins og af launum og því
þarf lífeyrissjóðurinn einnig að fá skattkort
til þess að sjóðfélagi geti nýtt persónuafslátt
sinn hjá sjóðnum.
Þegar grunn-, framhalds- eða tónlistar-
skólakennari hefur töku eftirlauna skiptir máli
hvort hann var upphaflega september- eða
ágústráðinn. Ágústráðnir segja upp 1. maí,
septemberráðnir 1. júní. Í þeim tilfellum þar
sem upphaf ráðningar miðast við skólaár
þá segir septemberráðinn kennari upp 1.
júní en hefur enga vinnuskyldu í ágúst og
ágústlaun hans skulu vera eins og skólaárið
á undan.
Að kenna á eftirlaunum
Ef eftirlaunakennari er ráðinn í stunda-
kennslu þá skerðir það ekki lífeyrisgreiðslur
og getur kennari tekið að sér eins mikla
kennslu og hann vill. Stundakennsla er
greidd á starfstíma skóla og svo bætist orlof
ofan á.
Kjarasamningur gerir ráð fyrir því að
eftirlaunakennarar séu stundakennarar þó
að heimilt sé að semja um annað, eins og
t.d. 49,9% ráðningu. Það er því heimilt að
taka að sér hlutastarf, en það ráðningarform
er háð samþykki launagreiðanda og starfs-
hlutfallið má þá ekki fara yfir 49,9%. Ef
starfið sem sinnt er hefur skylduaðild að
lífeyrissjóði viðkomandi þá er ekki greitt
í þá deild sem verið er að taka lífeyri úr.
Eitthvað hefur verið um það að kennarar,
sem eru komnir á lífeyri hjá Lífeyrissjóði
starfsmanna ríkisins, hafi ráðið sig í
starfshlutfall og er það heimilt samkvæmt
reglum lífeyrissjóðsins. Ef starfinu sem
lífeyrisþeginn sinnir fylgir hins vegar ekki
skylduaðild að lífeyrissjóðnum, sem tekið er
úr, er hægt að hafa ótakmarkaðar tekjur án
þess að skerða eftirlaunin en greiða verður
fullan skatt af tekjunum.
Félag kennara á eftirlaunum
Þegar kennari fer á eftirlaun breytist félags-
aðild viðkomandi að KÍ. Kennarar á eftir-
launum sem hafa fram að lífeyristöku verið
félagsmenn KÍ geta sótt um að verða félagar
í FKE (Félag kennara á eftirlaunum). Sá
sem er félagi í FKE fær senda Skólavörðuna
og allan póst sem sendur er út á vegum
félagsins og getur nýtt sér þjónustu Orlofs-
sjóðs KÍ. Einnig er starfrækt innan Félags
leikskólakennara sérstök deild fyrir þá leik-
skólakennara sem komnir eru á eftirlaun.
Sækja þarf sérstaklega um aðild að deild-
inni.
Þeir kennarar sem ráðnir eru í hlutastörf
eftir að taka eftirlauna er hafin og greiða
áfram félagsgjöld njóta fullra félagslegra
réttinda hjá KÍ og allra réttinda samkvæmt
kjarasamningum.
Ef þið hafið einhverjar spurningar um
þetta eða annað er ykkur velkomið að hringja
til mín í síma 595 1111 eða senda mér
tölvupóst á netfangið ingibjorg@ki.is. Einnig
má leita ráðgjafar um eftirlaun hjá Eiriki
Jónssyni formanni KÍ. Í lokin vil ég þakka
ykkur sem lesið hafið greinarnar mínar í
vetur og vona að þið njótið sumarsins sem
er framundan.
Ingibjörg Úlfarsdóttir
Launafulltrúi KÍ
Kjarasamningur gerir ráð fyrir því að eftirlaunakennarar séu
stundakennarar þó að heimilt sé að semja um annað, eins og
t.d. 49,9% ráðningu. Það er því heimilt að taka að sér hlutastarf,
en það ráðningarform er háð samþykki launagreiðanda og
starfshlutfallið má þá ekki fara yfir 49,9%.
Að hefja töku eftirlauna
Ingibjörg Úlfarsdóttir
launafulltrúi KÍ
Lj
ós
m
yn
d
:
S
te
in
un
n
Jó
na
sd
ót
ti
r