Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 17

Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 17
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008 breyttu kennsluháttum,“ segir Pétur Orri, „en 2003 og 2004 sátu stjórnendur og milli- stjórnendur grunnskóla í borginni ítarleg námskeið um einstaklingsmiðað nám sem þáverandi fræðslustjóri Reykjavíkur, Gerður G. Óskarsdóttir, lagði mikla áherslu á og hefur verið í deiglunni æ síðan. Ólafur H. Jóhannsson aðjúnkt í Kennaraháskólanum fór fyrir þeim vinnuhópi stjórnenda sem við Þórunn sátum í í kjölfar námskeiðsins og hann hvatti okkur ötullega.“ Þórunn upplýsir að vatnaskil hafi orðið með mjög mikilvægum foreldrafundi sem haldinn var nærri mánaðamótum janúar –febrúar árið 2006. „Við héldum þennan fund með foreldrum barna í hverfinu en kennarar voru þá enn mjög tvístígandi eins og skiljanlegt er í breytingaferli. Foreldrar komu ekki með neinar mótbárur og studdu okkur í þessu, það eina sem þeir nefndu var að þeir vildu að það væri tryggt að bekkir fengju að halda sér,“ segir Þórunn. „Starfsmannaviðtöl voru í gangi um svipað leyti. Við höfðum sent út starfsóskalista til kennara fyrir áramót eins og alltaf er gert og svo vel vildi til að við gátum látið alla okkar kennara fá þau fög sem þeir óskuðu eftir að kenna samkvæmt nýrri skipan. Það jók auðvitað stuðning við áformin.“ Aðspurð hvort ekki hafi reynst erfitt að koma á greinabundinni kennslu þegar hluti skólasamfélagsins var á móti því og þar með taldir sumir kennaranna í Hvassaleitisskóla svara Pétur Orri og Þórunn því játandi. „Samstarf okkar Þórunnar var ómetanlegt í þessu eins og öðru,“ segir Pétur Orri. „Ef annað okkar hefði sýnt smáeftirgjöf þá hefði þetta ekki gengið upp! Kennarar mættu svo tilbúnir í slaginn haustið 2006. Þetta er hörkulið og kennarahópurinn í heild er mjög vaxandi í þessari hugsun. Þeir sýna það jafnt í verki og viðhorfum að þeir hafa hug á að fylgja þessu eftir.“ Lítið álag á kennurum Í könnun menntasviðs kemur fram að af reyk- vískum skólum er álag á kennurum minnst í Hvassaleitisskóla. „Það er ómetanlegt að fá svona mat því umræður okkar starfs- mannanna verða miklu markvissari,“ segir Þórunn. „Allir verða smám saman sann- færðari um að svona vilji þeir vinna.“ En af hverju er minna álag? spyr blaðamaður. „Meðal annars vegna þess að kennarinn er að vinna það sem hann hefur áhuga á og kann,“ svarar Pétur Orri. „Svo fengu kennararnir það sem þeir vildu þegar við byrjuðum, peningasparnaðurinn var til þess gerður. Við sögðum við þá: Þið fáið allt sem þið þurfið til þess að byggja upp ykkar fag, hvort sem það eru skjávarpar, smásjár, fartölvur eða eitthvað annað. Við höfum hingað til aldrei sagt nei. Íslenskukennararnir báðu um og fengu ræðupúlt svo dæmi sé tekið og púltin hafa borið svo mikinn árangur að það nálgast að vera bylting. Nemendur koma miklu meira fram og ávarpa fjöldann og eru ófeimnari við það.“ Þórunn bætir við að kennari sem hafi sérstakan áhuga á því sem hann kenni undirbúi sig betur. Það minnki álag og bæti kennslu. „Við sjáum þetta nú þegar. Svo ýta líka tvær samfelldar kennslustundir undir fjölbreytta kennsluhætti,“ segir hún. „Aginn batnar,“ bætir Pétur Orri við, „og börnin verða að mörgu leyti opnari, þau fá hvatningu til að læra á sínum forsendum, kynnast fleiri kennurum og verða gagnrýnni á kennsluna.“ „Umgengni og hegðun hefur hvort tveggja tekið framförum“, segir Þórunn og þetta reynir á skipulagsfærni hvers og eins. Þá eflir það félagsfærni að fara á milli og sitja hjá mörgum öðrum nemendum.“ Markmiðaðri símenntun Nýja skólastefnan í Hvassaleitisskóla hefur að sögn skólastjórnenda sem innleiddu hana margar jákvæðar hliðar eins og komið hefur fram. Símenntun er það sem þau Pétur Orri og Þórunn nefna næst til sögunnar. „Kennarar hafa meira frumkvæði að því að sækja sér símenntun,“ segir Pétur Orri. „Hér áður fyrr var þeim sagt að fara á þetta námskeiðið eða hitt en nú koma þeir og segja að það sé brýnt að þeir komist á til- tekin námskeið. Um leið og kennarar 17 Kennari sem hefur sérstakan áhuga á því fagi sem hann kennir undirbýr sig betur en sá sem hefur það ekki. Þá ávinnst tvennt, kennslan er betri og minna álag á kennaranum. mennta sig á þennan hátt verður kennslan líka skilvirkari. Í gamla bekkjarkennara kerfinu var kennt eftir miðjunni. Núorðið fá nemendur frekar verkefni við hæfi.“ „Áður en við tókum þetta upp voru kennarar almennt á þeirri skoðun að þeir ástunduðu fjölbreytta kennsluhætti,“ segir Þórunn. „En fjölbreytnin fólst oft í því að vera með margar bækur. Núna sjáum bæði við og kennararnir raunverulega fjölbreytni.“ Að sögn Þórunnar og Péturs Orra er þemavinna tiltekin kennsluaðferð í fjölbreyttri flóru kennsluhátta og þeim finnst ekki ástæða til að miða allt skólastarf við hana. Engu að síður er boðið upp á þemavinnu í fjórar vikur alls á skólaárinu í Hvassaleitisskóla, tvær fyrir jól og tvær eftir jól. „Það er skemmtilegt að brjóta upp starfið með þessum hætti,“ segir Pétur Orri, „en við aðhyllumst greinabundna námið sem aðalstefnu og teljum að ef við eigum að kenna samkvæmt aðalnámskrá þá náum við ekki betri árangri en með þeirri aðferð. Frumkvæði kennara eykst á öllum sviðum og við þurfum ekki lengur að ýta að kennurum ýmsu sem við þurftum áður, áhugi þeirra og öryggi eykst og reyndar ekki bara hjá kennurum heldur líka foreldrum. Þeir síðartöldu gera auknar kröfur til hvers kennara og það er jákvætt. Svo má nefna að kennarar finna fyrir auknu öryggi þegar þeir þurfa að ræða óviðunandi hegðun nemenda. Þeir eru allir með marga kennara og foreldrar geta ekki annað en hlustað ef barnið þeirra hegðar sér svona hjá öllum kennurum, ekki bara einum. Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af okkar stefnu,“ segir Pétur Orri, „en mér finnst ekki vanþörf á að staldra við og hugsa sinn gang nú þegar reykvískir skólar eru á niðurleið bæði samkvæmt PISA og niðurstöðum úr samræmdum prófum.“ Blaðamaður mótmælir því ekki og spyr skólastjórann og aðstoðarskólastjórann í lokin: Er gaman í vinnunni? „Já, mjög!“ segja þau bæði og brosa út að eyrum. keg GREINAbUNdIN KENNSLA OG NÁM

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.