Skólavarðan - 01.06.2008, Blaðsíða 22
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 8. ÁRG. 2008
22
Skólavarðan minnir á mjög merkilega ráð-
stefnu sem haldin verður hérlendis næsta
haust á vegum ADHD samtakanna og
fleiri aðila, þeirra á meðal er Kennara-
félag Reykjavíkur. ADHD samtökin eru
til stuðnings börnum og fullorðnum með
athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir,
sem og fjölskyldum þeirra. Ráðstefnan
er haldin í tilefni af tuttugu ára afmæli
samtakanna á Íslandi og stendur yfir dagana
25. og 26. september. Hún ber yfirskriftina
Tök á tilverunni – staðan í dag og vegvísar
til framtíðar.
Markmið ráðstefnunnar er að miðla fræðslu
og stuðla að aukinni þekkingu um ADHD
hjá öllum sem koma að málefnum barna,
unglinga og fullorðinna með ADHD. Þemu
eru annars vegar skólaganga barna með
ADHD og hins vegar fullorðnir með ADHD. Við
val á fyrirlesurum var tekið mið af þessum
áherslum. Ráðstefnugjald er lægra fyrir þá
sem skrá sig fyrir 15. júlí. Dagskrárdrög
liggja fyrir en athugið að dagskráin getur
breyst ef forföll verða. Hér er stiklað á stóru,
dagskrárdrögin í heild eru á www.ki.is og
www.adhd.is
Á fimmtudeginum 25. september heldur
Thomas E. Brown tvö erindi: New develop-
ments in understanding ADHD and it‘s
complications og Strategies for medications
and other treatments for ADHD. Thomas
er aðstoðarprófessor í geðlæknisfræði við
Yale háskóla og aðstoðarframkvæmdastjóri
rannsóknastofu um athyglisbrest og skyldar
raskanir sem er líka í Yale. Hann er fræðimaður
í fremstu röð á þessu sviði og tilgátur hans og
fræðistarf hefur vakið mikla og verðskuldaða
athygli. Hann rekur líka eigin stofu þar sem
hann metur og veitir meðferð bráðgreindum
börnum, unglingum og fullorðnum með
ADHD. Dr. Brown hefur skrifað fjölda greina
og bóka um ADHD. Sjá nánar um hann á
www.drthomasebrown.com
Sama dag heldur Ragnheiður Fossdal
líffræðingur fyrirlesturinn Erfðarannsókn á
ofvirkniröskun og athyglisbresti og Dagmar
Kr. Hannesdóttir sálfræðingur flytur erindi
sitt Snillingarnir. Þjálfun í samskiptum, tilfinn-
ingum, sjálfsstjórn og athygli barna með
ADHD. Mörg fleiri erindi verða flutt þennan
dag. Ragnheiður og Dagmar eru ekki með
vefsíðu.
Föstudagur 26. september er ekki síður
spennandi. Þá mæta til leiks auk Thomasar
og innlendra fyrirlesara þær Kathleen
Nadeau og Sandra Rief. Kathleen er þekkt
fyrir að vera með báða fætur á jörðinni
og gefa gífurlega hagnýt ráð um hvernig
börn og fullorðnir með ADHD geti hagað
lífi sínu til að fá sem mest út úr því. Hún
er klínískur sálfræðingur eins ogThomas og
stjórnar miðstöð um ADHD auk þess að gefa
ásamt fleirum út vefinn ADDvance, skrifa
bækur og halda fyrirlestra og námskeið
um allan heim. Fyrirlestur Kathleen heitir
Building an ADD-friendly life. Sandra er
menntunarráðgjafi, fyrirlesari, rithöfundur
og námskeiðshaldari. Hún er líka kennari
og hefur hlotið viðurkenningu sem slíkur.
Fyrirlestur Söndru er á því sviði; Reaching
and teaching children with ADHD. Sjá nánar
um Kathleen og Söndru á www.addvance.
com og www.sandrarief.com
Meðal annarra áhugaverðra viðburða
á föstudeginum má nefna erindi Sigrúnar
Harðardóttur félagsráðgjafa, námsráðgjafa
og kennara, Framhaldsskólinn og nemendur
með ADHD. Sigrún er brautryðjandi í
þjónustu við framhaldsskólanemendur með
ADHD og er verkefnissjóri nemendaþjónustu
Menntaskólans á Egilsstöðum. Sé nemandi
með ADHD er gerður við hann samningur
þar sem lögð eru drög að þjónustu skólans
og ábyrgð nemandans á námi sínu. Allir
kennarar viðkomandi fá afrit af samningnum.
Þjónusta við nemendur með ADHD getur að
öðru leyti falist í fræðslu um hvernig ADHD
hefur áhrif á þá sem námsmenn og aðstoð við
að vinna gegn þeim áhrifum, atferlisþjálfun,
rólegum aðstæðum í prófum, prófkvíða-
námskeiði, sjálfsstyrkingarnámskeiði, stuðn-
ingsviðtölum, þar sem meðal annars er farið
yfir námslega stöðu þar sem stuðst er við
upplýsingar frá fagkennurum, og samstarfi
við foreldra.
Allir sem láta sig varða málefni fólks
með ADHD eiga sannarlega erindi á þessa
metnaðarfullu ráðstefnu þar sem ekkert er
til sparað.
keg
Tök á tilverunni - ADHD ráðstefna 25. og 26. september
Tvö meginefni: Skólaganga barna með ADHD og fullorðnir með ADHD
Kathleen Nadeau Sandra Rief Thomas E. Brown
RÁÐSTEFNA