Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 7

Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 7
7 SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 9. ÁRG. 2009 KjARAMÁL Nú er tímabundin heimild til að taka út allt að einni milljón króna af viðbótarlífeyri. Margir félagsmenn velta því fyrir sér hvort þetta sé skynsamlegt og aðrir hvort þeir eigi að hætta að leggja fyrir á þennan hátt. Loks vilja sumir vita hvort þeir eigi að flytja peningana sína yfir á aðra sparnaðarleið innan síns lífeyrissjóðs. Eiríkur Jónsson formaður KÍ tók nýlega við formennsku í stjórn LSR og því voru hæg heimatökin að spyrja hvað honum fyndist um þetta allt saman. „Að mínu mati er einungis skynsamlegt í tveimur tilfellum að nýta þessa heimild,“ segir Eiríkur. „Annars vegar ef þörfin er mjög brýn, ef fólk verður að fá aura til að hreinlega komast af. Og hins vegar ef það er með óhagstæð lán og getur bætt stöðu sína með því að borga inn á höfuðstólinn. Fólk verður að skoða þetta hver fyrir sig en við getum tekið dæmi. Segjum að einhver sé með viðbótarlífeyrissparnað sinn á verð- tryggðri bók með 6 ½ – 7% vöxtum. Þá er ekki skynsamlegt að taka út milljón til þess að greiða niður verðtryggt lán með 4 ½ – 5% vöxtum. Annað, sem ekki er víst að allir hugsi út í, er að ef maður ákveður að taka milljónina út og leggja hana inn á til dæmis bók með hærri ávöxtun þarf að reikna með 10% fjármagnstekjuskattinum sem leggst á frá og með því að þetta er gert. Svona þarf hver og einn að leggja þetta niður fyrir sér. Ég mæli alls ekki með því að neinn taki út milljón til að nota í neyslu og ráðlegg fólki að taka sparnaðinn ekki út nema þörfin sé brýn. Svo er eitt enn sem þarf að kanna í þessu sambandi en það er hvort fólk þurfi að greiða eitthvert gjald fyrir að taka út. Það þarf ekki í LSR en hugsanlega hjá einhverjum öðrum sjóðum.“ Eiríkur segist ekki vera í neinum vafa um hvort eigi að fara eða vera: „Ég ráðlegg öllum eindregið að halda áfram með viðbótarlífeyrissparnað,“ segir hann. „Eina undantekningin að mínu mati er ef fólk er svo illa statt fjárhagslega að það hreinlega getur það ekki. Þetta er augljós ávinningur, á móti hverjum þúsundkalli frá þér leggur atvinnurekandinn til þúsundkall. Algengast er að fólk nýti 2% af tekjum sínum með þessum hætti og atvinnurekandinn leggur annað eins á móti. Eitt sem fólk þarf líka að muna eftir í þessu samhengi er skatturinn. Fyrir hvern þúsundkall sem þú leggur inn á viðbótarlífeyrissparnað minnka ráðstöfunartekjur þínar ekki um þá fjárhæð heldur um tæpar 630 krónur af því að skatturinn er um 37,5%. Þú hefur semsagt um 630 krónum minna milli hand- anna í augnablikinu af því að þú lagðir inn 1000 krónur. Síðar á ævinni tekurðu svo auðvitað ekki út 1000 krónur heldur þær að frádregnum skatti eða um 630 krónur – með vöxtum og verðbótum að sjálfsögðu – af því að skattlagningin kemur í rauninni ekki til framkvæmda fyrr en þú færð aurana í hendur. Þannig að kennari með 300 þúsund króna mánaðarlaun borgar sex þúsund krónur af laununum í séreignarsparnað en rýrir ráðstöfunartekjur sínar um 3800 krónur í augnablikinu. Fólk gleymir stundum að taka þetta með í reikninginn.“ Að sögn Eiríks er mikilvægt að menn skoði hver fyrir sig þær leiðir sem hægt er að fara með séreignarsparnað í lífeyrissjóði þeirra. „Það er auðvitað hægt að leggja viðbótarlífeyrissparnað inn í hvaða lífeyris- sjóð sem er,“ segir Eiríkur, „og leiðir eru mismunandi. Oftast eru góðar upplýsingar um þetta á vefsíðum sjóðanna en svo legg ég til að fólk hringi eða hafi samband á annan hátt og sæki sér upplýsingar. Í LSR, þar sem ég þekki auðvitað best til, eru þrjár leiðir í boði. Mér finnst það fara svolítið eftir aldri og áunnum lífeyrisréttindum hvort fólk ákveður að flytja sparnaðinn sinn úr einni leið í aðra. Ég er 57 ára og flutti minn sparnað úr áhættusömustu leiðinni yfir í þá öruggustu. Ef ég væri hins vegar tuttugu eða þrjátíu árum yngri hefði ég líklega beðið með að flytja sparnaðinn þar til málin færðust aftur í betra horf. Og jafnvel sleppt því. Fyrir fólk eins og mig hins vegar, sem þarf að nota sparnaðinn innan fárra ára, er ef til vill öruggara að drífa í að flytja hann. Ég hvet þá sem eru með viðbótarlífeyris- sparnað sinn hjá LSR að skoða upplýsingar um ólíkar leiðir á vef sjóðsins, lsr.is, smella á Séreign og þar undir á Fjárfestingarleiðir.“ keg Eiríkur Jónsson situr fyrir svörum um viðbótarlífeyrissparnað Á ég að taka út milljón? Að kenna á eftirlaunum Í kjaramálapistli í Skólavörðunni í fyrra skrifaði Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ um töku eftirlauna. Vegna fyrirspurna er hér endurbirtur einn kafli greinarinnar þar sem fjallað er um eftirlaunakennara í kennslu. Einnig er minnt á að hægt er að lesa öll tölublöð Skólavörðunnar á www.ki.is og á vefnum er einnig að finna liðinn Spurt og svarað þar sem meðal annars er útskýrt margt í tengslum við lífeyrismál. Í stuttu máli er það þannig að kennarar geta unnið eins mikið og um semst ef þeir eru á stundakennarakaupi án þess að lífeyrisgreiðslur skerðist. Stundakennarar eiga hins vegar ekki rétt á stöðu sinni. Ef eftirlaunakennari fær fastráðningu má hann ekki vinna 50% eða meira því þá uppfyllir hann aftur skilyrði til aðildar að lífeyrissjóðnum og fer aftur að borga. „Ef eftirlaunakennari er ráðinn í stundakennslu þá skerðir það ekki lífeyrisgreiðslur og getur kennari tekið að sér eins mikla kennslu og hann vill. Stundakennsla er greidd á starfstíma skóla og svo bætist orlof ofan á. Kjarasamningur gerir ráð fyrir því að eftirlaunakennarar séu stundakennarar þó að heimilt sé að semja um annað, eins og t.d. 49,9% ráðningu. Það er því heimilt að taka að sér hlutastarf, en það ráðningarform er háð samþykki launagreiðanda og starfshlutfallið má þá ekki fara yfir 49,9%. Ef starfið sem sinnt er hefur skylduaðild að lífeyrissjóði viðkomandi þá er ekki greitt í þá deild sem verið er að taka lífeyri úr. Eitthvað hefur verið um það að kennarar, sem eru komnir á lífeyri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hafi ráðið sig í starfshlutfall og er það heimilt samkvæmt reglum lífeyrissjóðsins. Ef starfinu sem lífeyrisþeginn sinnir fylgir hins vegar ekki skylduaðild að lífeyrissjóðnum, sem tekið er úr, er hægt að hafa ótakmarkaðar tekjur án þess að skerða eftirlaunin en greiða verður fullan skatt af tekjunum.“ Skólavarðan 4. tbl. 2008, bls. 7.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.