Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 20

Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 20
20 SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 9. ÁRG. 2009 RITDóMUR Þessi bók er samsett af fimmtán grein- um eftir ýmsa höfunda sem eiga það flestir sameiginlegt að vera háskólaprófessorar í kennslu-, uppeldis-, menntunar- og tóm- stundafræðum. Í upphafi tala ritstjórar meðal annars um áhyggjur sínar af því að börn í nútíma samfélagi hafi glatað tengsl- um við náttúruna og kunni ekki lengur að nota hana sem uppsprettu leiks. Þar af leiðandi kunni þau ekki að meta gildi hennar og bera virðingu fyrir henni. Bókinni er ætlað að hjálpa kennurum og öðrum sem vinna með börnum að skilja af hverju leikur utandyra er þeim mikilvægur. Einnig að benda á leiðir til að útfæra nám og leik utandyra á árangursríkan hátt. Bókin er í þremur hlutum og er hver þeirra fimm kaflar. Fyrsti hlutinn fjallar um leik og aðstæður til leiks frá sögulegu sjónarhorni. Gerð er grein fyrir mismunandi aðstæðum til leiks utandyra og hvernig þar er hægt að taka tillit til einstaklinga með sérþarfir. Þá er talað um gildi frjáls útileiks fyrir víðtækan þroska barna, það er félags-, vitsmuna-, tilfinninga- og líkamsþroska, og komið með dæmi um hvernig hann eflir hvern þroskaþátt fyrir sig. Í öðrum hluta er fjallað um hvernig frjáls leikur og útivera skapa tækifæri fyrir börn til að þjálfa nýja þroskaþætti og prófa sig áfram í því sem þau hafa þegar lært. Lögð er áhersla á mikilvægi frímínútna í skóla í ljósi þess að í Bandaríkjunum er algengt að sá tími hafi verið styttur til muna eða alveg tekinn af. Því er haldið fram að frjáls útileikur geti jafnvel aukið námsárangur þar sem börn fá þar útrás fyrir streitu auk þess sem hann eflir hina ýmsu þroskaþætti þeirra. Í þriðja hluta er fjallað um hvernig hægt er að nota útiveru og náttúru til náms í frjálsum leik og skipulögðu námi. Fjallað er sérstaklega um vísindi, félagsfræði, listir og landafræði og komið inn á ýmsa möguleika til að nota náttúru og útiveru sem efnivið í þessum námsgreinum. Umfjöllunarefni bókarinnar er ekki nýtt af nálinni. Hins vegar koma höfundar með áhugaverð sjónarhorn á mikilvægi leiks í ljósi breyttra tíma í leik barna. Þeir tala um að aðstæður barna til leiks séu að breytast meðal annars vegna aukinnar inniveru, tölvuleikjanotkunar og meiri hræðslu foreldra við umhverfið. Einnig að þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og tóm- stundastarfi hafi aukist mikið á kostnað frjálsa leiksins. Þetta geri að verkum að börn séu minna úti en áður tíðkaðist og fái færri tækifæri til frjáls leiks. Þannig rökstyðja höfundar mikilvægi útiveru sem hluta af skóladagskrá þar sem ekki sé hægt að ganga að því vísu að börn njóti útivistar heima fyrir. Þrátt fyrir að umhverfið á Íslandi sé vissulega öruggara til útileiks en í Bandaríkjunum teljum við að þessi umræða eigi engu að síður vel við hérlendis þar sem þróunin hefur verið með svipuðu móti og þar. Útinám hefur einnig verið að ryðja sér til rúms í íslensku skólakerfi þar sem sífellt fleiri skólar og leikskólar eru að innleiða það sem hluta af námsskrá. Málefni bókarinnar gæti því átt upp á pallborðið hjá þeim aðilum sem vinna að útikennslu á Íslandi. Þrátt fyrir að bókin sé skrifuð af nokkrum höfundum tekst að mynda eina heild með góðu flæði. Kaflarnir koma í eðlilegri röð og mynda þannig söguþráð í gegnum alla bókina. Að okkar mati kemst mikilvægi leiks utandyra vel skila. Í því samhengi er vitnað í þekkta kennismiði á borð við Piaget, Vygotsky og Rousseau sem allir tala um mikilvægi leiks fyrir þroska barnsins. Auk þess er komið með góð rök fyrir því að náttúran sé ákjósanlegri staður til leiks en aðstæður innanhúss þar sem hún bjóði upp á meira rými og ótakmarkaðan efnivið sem hægt er að nýta til leiks og náms. Þannig sé náttúran góð viðbót við hina hefðbundnu kennslustofu. Einnig teljum við að margar þær hugmyndir sem höfundar nefna til að innleiða frjálsan leik og skipulögð verkefni utandyra í hefðbundnar námsgreinar séu áhugaverðar. Að okkar mati eru sumar þeirra þó ekki nægilega hagnýtar til að auðvelt sé að útfæra þær. Auk þess mætti gera betri greinarmun á hvenær rætt er um frjálsan leik eða skipulagða kennslu. Heimildanotkun er mismunandi eftir höf- undum og köflum. Enginn kafli byggist á frumrannsóknum en þó vitna margir höfunda í rannsóknir annarra máli sínu til stuðnings. Að okkar mati mætti vitna meira í rannsóknir á sviðinu til að auka trúverðugleika umræðunnar en ef til vill skortir slíkar rannsóknir. Á heildina litið teljum við bókina góða og að efninu sé komið vel til skila. Eftir lestur bókarinnar sannfærðumst við um að leikur er grundvallarmannréttindi barna og verður að varðveita þann rétt. Náttúran býður upp á ótakmarkaða möguleika til leiks þar sem börn fá að njóta þessara mannréttinda og því kjörið að nota leik og útiveru til kennslu. Ingunn Heiða Kjartansdóttir og Ína Björg Árnadóttir. Höfundar eru nemendur í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ ������������������������������������������������������������ �������������������������������� ���������� ���������������������� Leikur er grundvallar- mannréttindi barna og verður að varðveita þann rétt. Outdoor Education, Learning and Play: Ages 8 - 12 Burriss, K. G. og Boyd, B. F. (Ritstj.) (2005). Outdoor education learning and play: Ages 8-12. Olney MD: Association for Childhood Education International. Ína Björg Árnadóttir og Ingunn Heiða Kjartansdóttir

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.