Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.04.2009, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Tími nýrra hugmynda SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 9. ÁRG. 2009 Er mig að dreyma eða er skáldskapurinn orðinn að veruleika? Getur verið að við séum persónur og leikendur í glæpasögu Þráins Bertelssonar Dauðans óvissi tími? Fréttir og umræða í fjölmiðlum hafa verið með þeim hætti síðasta misserið að lyginni er líkast. Frásagnir af fjármálagerningum heima og erlendis eru slíkar að almenningur nær tæpast að skynja né skilja þær til hlítar. Niðurstaðan er engu að síður ljós. Hrun fjármálakerfisins er staðreynd og gjaldmiðillinn, íslenska krónan, stendur vart í lappirnar. Þá eykst atvinnuleysi hröðum skrefum og heimilin og fyrirtækin berjast í bökkum. Við lifum svo sannarlega á óvissum tímum þó að ekki sé um líf og dauða að tefla í sama skilningi og í áður nefndri bók Þráins. Undanfarið hafa stjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga leitað leiða til að draga úr rekstrarkostnaði þar sem fyrirséð er að tekjur dragist saman á yfirstandandi ári og því næsta. Þar sem fræðslumál eru einn stærsti útgjaldaliður í rekstri sveitarfélaga er ljóst að grunn- og leikskólar munu finna verulega fyrir þeim þrengingum sem nú ganga yfir. Svipaða sögu er að segja af framhaldsskólanum; þar verður hagrætt eins og kostur er. Þessi staða hefur skapað andrúmsloft óöryggis, spennu og kvíða meðal starfsmanna á öllum skólastigum. Stjórnendur eru undir miklu álagi vegna krafna um lækkun rekstrarkostnaðar, jafnvel þótt einstök sveitarfélög hafi lýst yfir vilja til að standa vörð um störfin. Þá bætti ekki úr skák að dráttur varð á afgreiðslu fjárhagsáætlunar margra sveitarfélaga og því ekki vitað lengi vel hve mikill niðurskurðurinn yrði. Þessi staða hefur gert stjórnendum erfitt fyrir að skipuleggja næsta skólaár ásamt því að upplýsa starfsfólk um hvað í vændum sé. Á sama tíma koma fréttir frá ríkisstjórninni um að þar á bæ sé verið að finna leiðir til að skapa fleiri störf fyrir æ stækkandi hóp atvinnulausra. Hvernig stendur á þessu ósamræmi? Jú, ef grannt er skoðað kemur í ljós að ríkistjórnin ætlar að auka framkvæmdir í samgöngum og byggingu orku- og álvera um leið og þjónusta sveitarfélaga verður skorin niður, þar á meðal í skólum. Á sama tíma benda ýmsir fræðimenn á að aukin áhersla á menntun og rannsóknir sé í raun besta leiðin út úr kreppunni og vísa þá til viðbragða Finna og Svía við fyrri bankakreppu. Undanfarið hafa komið upp mál þar sem sveitarfélög hafa leitað leiða til að draga úr launakostnaði með því að semja við einstaka starfsmenn um launalækkun í einhverju formi með skírskotun til þess að allir verði að taka á sig auknar byrðar og vísa í því sambandi til æðstu embættismanna ríkis og sveitarfélaga. Ljóst er að yfirvinnu og starfstengdum hlunnindum má segja upp en ólöglegt er að greiða laun undir umsömdum töxtum stéttarfélaga og breytir þar engu þótt launamaður samþykki slíkt. Þá er ekki hægt að ráða skólastjóra og aðstoðarskólastjóra leik- og grunnskóla í hlutastarf þar sem þeir eru á fastlaunasamningi með óskilgreinda vinnuskyldu. Kjarasamningar FG og SÍ renna út 31. maí n.k. Ljóst er að lítið verður að sækja til viðsemjenda eins og staðan er. Yfirlýst var að næstu samningar þessara aðila yrðu tímasettir um svipað leyti og kjarasamningar annarra starfsmanna sveitarfélaga. Það ætti því að vera eðlilegt að fresta samningum fram á haustið, m.a. til að sjá hvernig þjóðarskútan kemst út úr mesta brimrótinu og hvaða stefnu hún tekur, svo að notaðar séu líkingar úr sjómannamáli. Ársfundur KÍ var haldinn föstudaginn 13. mars sl. Þar var farið yfir starfsemi sambandsins á liðnu ári og hvernig verið er að vinna úr þingsamþykktum frá þinginu í fyrra. Jafnframt var fjallað um málefni líðandi stundar og þá ekki hvað síst efnahags- og menntamál. Af máli framsögumanna og umræðum er ljóst að staðan er dökk en engan veginn vonlaus og í raun björt ef litið er til aðeins fjarlægari framtíðar; sérstaklega ef okkur auðnast að leggja áherslu á mikilvægi góðrar menntunar og nýsköpunar. Framundan eru áskoranir og tími nýrra hugmynda og lausna. Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson Formaður SÍ. Ljóst er að yfirvinnu og starfstengdum hlunnindum má segja upp en ólöglegt er að greiða laun undir umsömdum töxtum stéttarfélaga og breytir þar engu þótt launa- maður samþykki slíkt. Þá er ekki hægt að ráða skólastjóra og aðstoðarskólastjóra leik- og grunnskóla í hlutastarf þar sem þeir eru á fastlaunasamningi með óskilgreinda vinnuskyldu.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.