Skólavarðan - 01.08.2001, Qupperneq 27

Skólavarðan - 01.08.2001, Qupperneq 27
Hvers vegna vissi ég ekki að hann Pétur gat ekki lesið? Hann var í 3. bekk gaggó og ég átti að heita kennarinn hans til sjö mánaða þegar hér var komið sögu. Þetta var skömmu eftir 1970 og fyrsti veturinn minn í kennslu. Ég hafði kennt þessum bekk ís- lensku og sögu. Af sjálfu leiðir að ég hafði nuddað í Pétri allan veturinn og fannst með ólíkind- um hve þessi fríski og glaðlegi drengur reyndi lítið til að læra heima. Þegar ég loks vissi um ó- læsi hans kunni ég ekki aðferðir til að hjálpa honum, hætti bara að taka hann upp. Fram að þessum tíma vissi ég ekki að til væri fullfrískt fólk sem gat ekki orðið vel læst. En það var margt fleira sem ég vissi ekki en hefði þurft að vita og geta. Sem dæmi má nefna að: • vera læs á einkenni leshömlunar, • viðurkenna að staða læsis hjá nem- endum kemur öllum kennurum við, • skilja að þekking á grunnfærni nemenda er leiðarvísir við undirbúning kennslu, • þekkja leiðir til að mæta þörfum illa læsra nemenda innan bekkjarins, sama hvaða fag er kennt og á hvaða aldri nemendur eru, • hafa til að bera færni til að ígrunda eigið starf á markvissan hátt, vera rannsakandi í eigin aðstæðum, spyrja sig spurninga og safna gögnum í því skyni að leita svara til að bæta enn frekar kennsluna, • skilja að það er styrkur kennara að leita sér aðstoðar við að finna lausnir til að mæta þörfum nemenda í námi. Nokkurt vatn er runnið til sjávar síðan við Pétur deildum kennslustund- um saman. Fræðilegri þekkingu á les- hömlun hefur fleygt fram á síðustu áratugum en þekking kennara er ekki nægi- lega góð. Á undanförnum árum hefur undirrituð átt mörg samtöl við ungmenni, einkum í framhaldsskólum, sem eru send til mín í lesgreiningu. Ýmsar athyglisverðar hliðar hafa komið fram sem sýna hvernig þau eiga á brattann að sækja í námi. Flest þeirra lýsa hæglæsi og litlum lesskilningi. Flest hafa þá sögu að segja að þegar þau hafa lesið niður eina blaðsíðu í námsbók muna þau ekki hvað stóð efst á henni. Þau syfjar við lest- urinn, hugurinn dvelur ekki við efnið held- ur flýgur út um víðan völl. Aðspurð hvað þau gera þegar þau muna ekki eða gengur erfiðlega að einbeita sér segjast þau nánast undantekningalaust lesa aftur það sama, orð fyrir orð - með litlu betri árangri. Með öðrum orðum þá beita þau sömu árangurs- lausu aðferðinni aftur af því einu að þau kunna ekki aðra betri. Þessi ungmenni segja einnig frá því hve erfitt sé að glósa eftir glærum kennara um leið og þau hlusta á fyrirlestur og fylgjast með töflukennslu, hve tungumálanámið gangi erfiðlega, sér- staklega lestur og ritun, og stílarnir komi alrauðir til baka í hvert einasta sinn. Síðast en ekki síst ræða þau um álagið sem fylgir þessum erfiðleikum. Það var á grunni þessarar reynslu sem ákveðið var stíga fyrsta skrefið í að kanna stuðning við leshamlaða nemendur í fram- haldsskólum og háskólum á Íslandi. Könn- unin var unnin í samvinnu við Þóru Björk Jónsdóttur (Skólaskrifstofu Skagfirðinga) en hún hefur álíka reynslu og lýst er hér að framan. Könnunin var gerð sl. vetur í þrjátíu og fimm fram- haldsskólum og átta háskólum og verður skýrslan tilbúin í byrjun september. Aðallega var spurt um þrjá þætti: a) fjölda nemenda sem njóta stuðnings vegna les- hömlunar, b) form og inntak stuðningsins og c) stöðu grein- ingar á leshömlun. Heimtur á svörum voru góðar, 75% háskóla og 66% framhalds- skóla sendu inn svör. Í þeim kemur fram að fjöldi nemenda, sem fengu stuðning vegna leshömlunar í háskólum, var 1% og í framhaldsskól- um 6,1% að meðaltali. Hæsta hlutfall leshamlaðra í einum skóla var 11,5% og lægst 0%. Svör skólanna bera með sér að þeir bera umhyggju fyrir þessum hópi nemenda. Flestir veita einhvers konar stuðning, sumir mikinn, aðrir lít- inn og er hann þá venjulega einskorð- aður við próftöku. Það er mat skólanna að þekking kennara sé ýmist þokkaleg eða lítil. Fyrir þrjátíu árum bárum við Pétur merki þess þekkingarleysis sem þá var á læsi og leshömlun. Nú er öldin önnur. Kennarar geta sótt sér endurmenntun á flestum sviðum, ef ekki á starfstíma skóla þá yfir sumarið. Þekkingin á les- hömlun er fyrir hendi og nægur fjöldi sérfræðinga í landinu til að miðla henni til kennara á öllum skólastigum og efla með þeim færni í kennslu. Fjöldi les- hamlaðra er og verður 4- 6%. Fjöldi annarra sem eiga við annars konar lestr- arörðugleika að etja er um 10-15%. Með markvissum aðgerðum mætti fækka í þeim hópi. Samfélagið getur lítið gert fyrir hann Pétur sem ég kynntist fyrir þrjátíu árum hvað varðar nám og kennslu. En það skuld- ar öllum þeim Pétrum, sem eru leshamlað- ir og stunda nú nám, þá bestu kennslu sem unnt er að veita. Enginn þeirra má fá kenn- ara eins og Pétur hafði fyrir þrjátíu árum, kennara sem kunni ekki til verka og kunni ekki að leita sér aðstoðar. Rósa Eggertsdóttir Höfundur var grunnskólakennari í rúm tuttugu og þrjú ár en starfar nú við kennsluráðgjöf og skólaþróun við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Smiðshöggið 30 Kemur mér það við? Samfélagið getur lítið gert fyrir hann Pétur sem ég kynntist fyrir þrjátíu árum hvað varðar nám og kennslu. En það skuldar öllum þeim Pétrum, sem eru leshamlaðir og stunda nú nám, þá bestu kennslu sem unnt er að veita. Enginn þeirra má fá kennara eins og Pétur hafði fyrir þrjátíu árum, kennara sem kunni ekki til verka og kunni ekki að leita sér aðstoðar.

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.